Samkeppniseftirlitið hefur gert sátt við Félag fasteignasala vegna rannsóknar stofnunarinnar á  brotum félagsins við samkeppnislög og greiðslu 6 milljóna króna stjórnvaldssektar.

Hefur félagið þar með viðurkennt að hafa brotið 12. grein laganna en brotin fólu í sér að félagið stóð fyrir umræðu um söluþóknun og innheimtu umsýslugjalda á meðal aðildarfyrirtækja sinna annars vegar og hins vegar að félagið hafi hvatt til þess að fasteignir yrðu eingöngu auglýstar til sölu á vef í eigu félagsins og aðrir miðlar yrðu sniðgengnir.

Segir á vef Samkeppniseftirlitsins að með ákvörðun stofnunarinnar og sáttinni sem gerð hafi verið við Félag fasteignasala hafi verið komið í veg fyrir háttsemi sem fari gegn samkeppnislögum. Um leið hafi hafi verið stuðlað að því að starfsemi á markaði fyrir sölu fasteigna á Íslandi byggi á forsendum heilbrigðrar samkeppni.

Jafnframt mun Félag fasteignasala gera ákveðnar breytingar á starfsemi sinni og innleiða samkeppnisréttaráætlun sem upplýsi félagið og meðlimi þess um kröfur samkeppnisreglna til starfsemi þeirra.