Þjóðskrá Íslands birti í gær tölur um fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu í mars eins og Viðskiptablaðið hefur áður fjallað um. Hækkanir milli mánaða voru talsverðar að þessu sinni og meiri en hafa sést lengi að því er kemur fram í Hagsjá Hagfræðideildar Landsbankans.

Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 2,7% milli mánaða í mars. Þar af hækkaði fjölbýli um 2,5% og sérbýli um 3,3%. Samkvæmt tölum Þjóðskrár hækkaði verð á fjölbýli um 21,3% á síðustu 12 mánuðum, sérbýli um 20,2% og er því heildarhækkunin 20,9%.

Hækkanir á bæði fjölbýli og sérbýli hafa aukist verulega allra síðustu mánuði. Árshækkun fasteignaverðs var lengi vel á bilinu átta til tíu prósentustig en er nú komin yfir 20% markið.

Raunverð fasteigna komst hæst í október 2007 en féll síðan mikið í kjölfarið. Nú í mars vantar einungis um 1% upp á að raunverðið til þess að sögulegri hæstu stöðu verði náð aftur. „Miðað við þróunina undanfarið mun það gerast í apríl,“ segir í Hagsjá Landsbankans.