Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 2,2% í júní. Um er að ræða mestu hækkun vísitölunnar í júnímánuði frá upphafi mælinga. Raunverð íbúða á höfuðborgarsvæðinu, þar sem leiðrétt hefur verið fyrir verðbólgu, hækkaði um 2,1% í mánuðinum. Þetta er önnur mesta mánaðarhækkun raunverðs íbúða síðan í maí 2007.

Í júní hafði íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 11% á einu ári og raunverð íbúða hækkað um 9,1%. Raunverð íbúða í fjölbýli hafði hækkað um 10,6% og raunverð sérbýlis um 5,0 prósent.

Raunverð íbúða á höfuðborgarsvæðinu er samkvæmt þessum nýjustu tölum orðið hærra en það var í október 2008, mánuðinum sem bankakerfið féll. Það er enn um 15% lægra en þegar það var hæst í október 2007, en 32% hærra en í lággildi sínu árið 2010. Ef hækkun raunverðs íbúða heldur áfram í sama takti og verið hefur undanfarið ár mun raunverð íbúða ná fyrra hágildi sínu eftir um eitt og hálft ár.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð .