*

föstudagur, 24. maí 2019
Fjölmiðlapistlar 10. mars 2019 13:43

Fávísindi

„Alls kyns ógnir steðja að fólki og það er fínt fréttaefni að segja frá því. En það má ekki verða að sjálfstæðu markmiði.“

Andrés Magnússon
Haraldur Guðjónsson

Alls kyns ógnir steðja að fólki og það er fínt fréttaefni að segja frá því. En það má ekki verða að sjálfstæðu markmiði, því þá munu tilefnislausar eða rangar fréttir ganga fyrir hinum hófstemmdari og réttari. Það á við um fréttir af öllu tagi, en sérlega skaðlegt þegar vísindin eru dregin inn í villuna.

Íslandsvinurinn og rithöfundurinn Matt Ridley hóf feril sinn sem vísindablaðamaður fyrir The Economist og hefur ritað fjölda alþýðlegra metsölubóka um vísindi. Honum hefur blöskrað ónákvæmni í fréttaflutningi af rannsóknum og framförum í vísindum, sem iðulega eru byggðar á fréttatilkynningum og útdráttum úr niðurstöðum, sem eru vísvitandi villandi eða jafnvel falsaðar. Stundum í þágu viðskiptahagsmuna en einnig í því skyni að ýta undir fjáröflun hagsmunasamtaka eða rannsóknarhópa.

Um liðna helgi birti Ridley grein í The Spectator um þessi efni, þar sem hann tók dæmi úr almennum fjölmiðlum mánuðinn á undan, þar sem almenningur var afvegaleiddur í nafni vísinda, sem ekki standast nokkra skoðun. Þær vísuðu fyrst og fremst til breskra fjölmiðla, en svipuð dæmi má finna í fjölmiðlum um heim allan, þar á meðal á Íslandi. * * * Það sem hér fer á eftir er að meginefni stytt endursögn á grein Ridleys.

* * *

H.L. Mencken, einn af beittustu pennum blaðamennskunnar hafði orð á því á fyrri hluta síðustu aldar, að eitt helsta starf stjórnmálamanna væri að vekja geig hjá almenningi, svo hann væri móttækilegri fyrir öllum þeirra frábæru lausnum á vanda heimsins. Ridley bendir á að fjölmiðlar, pólitíkusar og þrýstihópar hafi á undanförnum áratugum leitt fram hverja heimsslita-Grýluna á fætur annarri (kjarnorka, kólnun jarðar, súrt regn, ósonlagið, kúafár, nanótækni, erfðabreytt matvæli, aldamótaveiran o.s.frv.), án þess að hafa mikið fyrir sér annað en bölsýni og tækifæri til fjárveitinga úr vösum almennings.

Flest af því hafi þó verið byggt á einhverju raunverulegu, en eftir því sem samkeppnin hafi orðið harðari á hræðslumarkaðinum gerist það æ oftar að um hreinan skáldskap eða fals sé að ræða. Æ oftar sé slegið upp uggvænlegum horfum í heilbrigðis- eða umhverfismálum, sem sagt er að byggist á birtum rannsóknum, en við nánari skoðun standi þar ekki steinn yfir steini. Og það sem verra er, að jafnvel þó að slík ósannindi séu afhjúpuð, þá dugi það ekki til.

Hinn alræmdi dr. Andrew Wakefield var sviptur lækningaleyfi eftir að upp komst að- „rannsókn" hans á tengslum bólusetninga og einhverfu, sem hið virta lækningatímarit The Lancet birti árið 1998, væri fölsuð. Nú á síðustu dögum kom raunar út stór og óyggjandi rannsókn, sem staðfestir þessi tengsl, bara á hinn veginn: að óbólusett börn séu líklegri til þess að greinast á einhverfurófinu.

Afhjúpun dr. Wakefields sem loddara, sem vafalaust hefur líf þúsunda barna á samviskunni, hefur hins vegar lítið gert til þess að draga úr dellunni, eins og menn þekkja af mislingafaröldrum undanfarna mánuði. Það er ekki heldur eins og það sé minni völlur á Wakefield. Hann er helsta hetja andstæðinga bólusetninga í Bandaríkjunum, hefur auðgast gríðarlega á frekari útbreiðslu þvættingsins og skildi fyrir ekki löngu við langþreytta konu sína til þess að taka saman við súpermódelið Elle MacPherson. Falsið borgar sig.

* * *

Hinn 10. febrúar sló Lundúnablaðið The Guardian því upp að skordýr kynnu að vera aldauða innan einnar aldar, en BBC og fleiri virtir miðlar tóku þetta upp. Þetta var byggt á „rannsókn" þeirra Francisco SánchezBayo og Kris Wyckhuys, sem kváðust hafa athugað niðurstöður 73 annarra rannsókna til þess að komast að þeirri samanteknu niðurstöðu að nákvæmlega 41% skordýrategunda væri í hnignun og að ef mannskepnan tæki ekki upp breyttar venjur í matvælaframleiðslu myndi gervallur skordýrabálkur jarðar fara hæga leið til Heljar á örfáum áratugum.

Vandinn er sá að rannsóknin stóð ekki undir nafni. Þeir félagar höfðu slegið inn orðin „skordýr" og „fækkun" inn í fræðagrunn og fengið það sem þeir vildu, en um leið litið hjá öllum rannsóknum sem leiddu í ljós fjölgun eða óbreytt ástand skordýrastofna. Þeir athuguðu ekki heldur hvort niðurstöðurnar væru tölfræðilega marktækar, svo draga mætti ályktanir af, og mistúlkuðu jafnvel heimildirnar, þegar þær studdu ekki niðurstöður þeirra eða voru beinlínis andstæðar þeim. Þá studdust þeir mjög við tvær þekktar ritgerðir, aðra frá Þýskalandi og hina frá Puerto Rico, sem sögðu færri skordýr nú en áður. Þær reyndust þó ekki ýkja ábyggilegar, því önnur bar ekki saman sömu staði, meðan hin rakti þetta allt til staðbundinnar hnattrænnar hlýnunar (sem reyndist alfarið mega rekja til þess að hitamælirinn hafði verið færður á þeim 36 árum sem liðu á milli) en leit alfarið hjá miklum úrkomumun eftir árstíðum.

* * *

Ridley nefndi aðra frétt frá sama degi, þar sem 41% kom líka við sögu, en þar var staðhæft að snerting við glyfosat, hið virka efni í arfaeyðinum Roundup, yki nýgengi tiltekins sjaldgæfs eitilfrumuæxlis. The Guardian greindi þess vegna frá því í fyrirsögn að arfaeyðir yki hættuna á krabbameini um 41%. Aftur var þetta ekki ný rannsókn, heldur samantektarrannsókn á rannsóknum annarra. Þar var fimm hæpnum rannsóknum steypt saman við fimm mun lakari, en hæsta áhættumatið í einni af hinum síðarnefndu notuð til þess að samantektin virtist skila tölfræðilega marktækri niðurstöðu.

Svona rannsóknir koma ekki fram í tómarúmi. Í Bandaríkjunum hafa skaðabótalögfræðingar um nokkurt skeið reynt að komast að skaðsemi glyfosats í von um að komast í feitt. Þeim til vonbrigða hefur hver rannsóknin á fætur annarri leitt í ljós að efnið er ekki krabbameinsvaldandi. Bandaríska lyfjaeftirlitið, matvælaeftirlit ESB, Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna, Alþjóðaheilbrigðisstofnunin og fleiri hafa rannsakað það í þaula og ekki fundið neina krabbameinsáhættu því tengda.

* * *

Nokkrum dögum síðar greindu ýmsir breskir fjölmiðlar frá fullyrðingu þankabankans Institute for Public Policy Research (IPPR) þess efnis að frá árinu 2005 hefði flóðum í heiminum fjölgað 15-falt. Í kjölfarið sigldu ýmsar útgáfur af því hvernig mannkyn væri svo að segja dauðadæmt, sennilegast fyrir eigin tilverknað.

Hið eina sem þarna flæddi var bullið. Engin gögn benda til þessa, en þegar eftir var gengið við hugveituna var því borið við að þetta hefði verið prentvilla. Þar hefði átt að standa frá 1950. Sem ekki er rétt heldur. Vísindanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) fylgist grannt með flóðaupplýsingum og segir enga sérstaka eða óvenjulega þróun í þeim efnum.

Svo enn var spurt og þá benti hugveitan á heimildina, sem reyndist vera mat GMO á gögnum úr alþjóðlegum gagnagrunni um slys og tjón af náttúrunnar hendi og af manna völdum, en tekur til miklu smávægilegri viðburða en eiginlegra flóða og aðeins allra síðustu ár. Og hvað er GMO? Jú, það er eignastýringarfyrirtæki í eigu Jeremy Grantham, eins af helstu bakhjörlum hugveitunnar, sem á nokkuð undir tíðindum af þessu tagi! Einhverntímann hefði það verið frétt.

* * *

Sumir eru til í að fyrirgefa ýkjur og villur ef það er í þágu góðs málstaðar. Það er óhyggilegt, því það getur beint sjónum manna að því sem ekki þarf að laga og dregið athyglina frá hinu. Það býður líka heim hættunni á því að Trumpar heimsins trúi engum slíkum gögnum, vondum sem vönduðum. Smám saman grefur það auðvitað líka úr almennri tiltrú á fræðasamfélagið og vísindi almennt. Hverju munu menn þá trúa? Sennilegast hverju sem er.

En fyrir fjölmiðla er aðalhættan auðvitað sú að þeir verði æsingunni að bráð og hætti að segja almenningi hið sannasta og réttasta. Að það skipti jafnvel ekki máli.

25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim