Félag kvenna í sjávarútvegi er fimm ára ára gamalt félag með á þriðja hundruð félagsmenn. Freyja Önundardóttir er framkvæmdastjóri Útgerðarfélagsins Önundar ehf. og fráfarandi formaður félagsins. Hún segir að aukin aðkoma kvenna í stjórnun sjávarútvegsfyrirtækja myndi styrkja þau. Hagur sjávarútvegsfyrirtækja myndi vænkast með meiri þátttöku kvenna í stjórnun þeirra, eins og rannsóknir hafa sýnt. Agnes Guðmundsdóttir starfar í markaðsmálum hjá Icelandic Asia. Hún er nýlega tekin við sem formaður félagsins. Hún segir að verkefnin framundan séu ekki síst þau að auka tengslin við ungt fólk og vekja það til vitundar um þau tækifæri sem sjávarútvegurinn býður upp á.

Freyja segir það staðreynd að lítil umfjöllun er um konur í sjávarútvegi í íslenskum fjölmiðlum. Vissulega séu fáar konur við sjálfar fiskveiðarnar en þær koma víða við sögu í fiskvinnslu, sölu- og markaðsstarfsemi og í alls kyns rannsóknar- og frumkvöðlafyrirtækjum á sviði sjávarútvegs. Agnes bendir á að fjöldi frumkvöðlafyrirtækja hafi sprottið upp undanfarin misseri þar sem konur eru í fyrirsvari.

„Það sem okkur vantar eru konur í áhrifastöður í efsta lagi fyrirtækja. Þar eiga þær að vera sýnilegar og vera fyrirmyndir. Þá fyrst hefst þessi keðjuverkun sem getur leitt til þess að fleiri konur hefjist til áhrifa innan sjávarútvegsfyrirtækja. Það voru mér dálítil vonbrigði að á Sjávarútvegsráðstefnunni í síðasta mánuði hve fáar konur voru sýnilegar, t.a.m í pallborði. Þær voru fleiri áður og mér sýnist hafa orðið eitthvað bakslag í þessum málum,“ segir Freyja.

Tengslanet kvenna og karla

Agnes segir að það megi ekki halda að markmiðunum sé náð þegar vel gangi. Það þurfi stöðugt að koma þessum sjónarmiðum á framfæri. „Konur þurfa stöðugt að gera sig sýnilegri. Jafnvel þótt margar séu í stjórnunarstöðum og öðrum góðum stöðum eru þær ekki eins sýnilegar og karlarnir. Þær þurfa að koma fram og láta að sér kveða á opinberum vettvangi. Tilgangur félagsins er að styrkja og styðja konur til að stíga fram. En ekki síður að bæta tengslanetið. Það er oft tengslanetið sem karlar hafa fram yfir konur,“ segir Agnes.

Freyja vitnar til rannsóknar sem Félag kvenna í sjávarútvegi fékk Gallup til að gera og var fyrsta rannsókn sinnar tegundar á alþjóðavísu. Þar hafi meðal annars komið fram að konur telji tengslanet skipti meira máli heldur en karlar. Skýringin sé hugsanlega sú að karlar upplifi ekki samskiptin sín á milli sem þátt í sínu tengslaneti heldur fremur sem eðlilegan og sjálfsagðan hluta af samskiptum við annað fólk. Agnes segir að annað sem hafi komið á óvart í rannsókninni sé það að stjórnendur sjávarútvegsfyrirtækja  ráði frekar til sín starfsfólk í gegnum tengslanet sitt en í gegnum ráðningarstofur. „Þess vegna legg ég mikla áherslu á uppbyggingu tengslanets meðal kvenna í sjávarútvegi því til þess að komast til áhrifa á þessum vettvangi gildir það fornkveðna að „maður þekkir mann.““

Tækifæri fyrirtækjanna

Freyja segir rannsóknir hafi leitt í ljós mikilvægi þess að breidd sé í stjórnendateymi fyrirtæki og þar beri að forðast mikla einsleitni. Með aðkomu kvenna að stjórnum sjávarútvegsfyrirtækja breikkar sjónarsviðið og nýjar hugmyndir fæðast. Rannsóknir sýna að árangur og hagnaður fyrirtækja þar sem þessi breidd er til staðar er meiri. „Það er ástæða fyrir setningu laga um kynjakvóta. Það eru líka fyrirtæki sem meðvitað vinna eftir niðurstöðum þessara rannsókna en því miður eru þau of fá innan sjávarútvegsins. En hvert stóru sjávarútvegsfyrirtækjanna ætlar að verða fyrst til þess að grípa boltann á lofti og jafna kynjahlutföllin innan sinnar stjórnar? Við erum ekki komin þangað ennþá en fyrirtækin standa frammi fyrir þessu tækifæri,“ segir Freyja.

Þær stöllur segja talsvert hafi borið á því að konum hafi verið sagt upp störfum hjá fyrirtækjum sem tengjast sjávarútvegi vegna breytinga sem verið er að gera á þeim. Margar þessara kvenna eru í Félagi kvenna í sjávarútvegi og segja þær nú lag fyrir önnur fyrirtæki að ráða þessar hæfu konur. Freyja segir að félagið sé samræðuvettvangur og tengslanet um leið og kjörinn vettvangur fyrir konur í þessari stöðu. Áður hafi konur verið hver í sínu horni að fást við sitt en nú er hátt í þrjú hundruð konur í félaginu úr öllum mögulegum geirum sjávarútvegsins. Sem dæmi um það má nefna að jafnvel er sérhæfing á sviði sjávarútvegs innan bankanna, tryggingafélaga, skipamiðlana og flutningafyrirtækja og þaðan koma nokkrar konur.

Félagið hefur kynnt sig til að mynda á sjávarútvegssýningum og við ýmis önnur tækifæri. Einnig hefur verið rætt um að efla félagið meðal kvenna sem starfa í sjávarútvegi úti á landsbyggðinni og hefur það verið gert að einhverju marki. Þannig var kynningarfundur á Austurlandi í fyrra og tóku fyrirtæki þar afar vel á móti fulltrúum félagsins. Einnig var farið á Norðurland, til Vestmannaeyja, Reykjaness og Snæfellsness. Þá eru opnir viðburðir þar sem konum er boðið að koma og styrkja tengslanet sitt en einnig viðburði sem opnir eru báðum kynjum. Í fyrra var til dæmis slíkur fundur í Hafrannsóknastofnun á vegum félagsins um kvótakerfið.

„En við þurfum líka að vekja stjórnendur fyrirtækja upp til vitundar um ágæti kvenna í stjórnun fyrirtækja og að þær hafa mikið fram að færa. Jafnræði í stjórnun fyrirtækja er auðvitað markmiðið en við eigum enn talsvert í land með það. Sjávarútvegurinn á að taka þetta til sín á þann hátt að taka frumkvæði í þessu máli. Þetta er tækifæri,“ segir Freyja.

Ungt fólk í sjávarútveg

Agnes segir að stefnt sé að því að byggja félagið enn frekar upp og fá fleiri konur inn í það. Það hóf starfsemi vorið 2013 og skráðu sig þá um 80 konur í félagið. Félagafjöldinn hefur meira en þrefaldast á fimm árum en Agnes vill ekki láta staðar numið. Reglulega sé farið í heimsóknir í fyrirtæki og iðulega hefur fjölgað í félaginu í kjölfarið. Dæmi eru um að fyrirtæki í sjávarútvegi greiði félagsgjöld fyrir sína starfsmenn.

„Ég hef mikinn áhuga á því að laða ungt fólk að sjávarútvegnum og mér þykir það mjög mikilvægt. Það er fjöldinn allur af ungu og vel menntuðu fólki að ljúka háskólanámi en það eru fáir sem sjá fyrir sér starfsframa innan sjávarútvegsins. Þarna getum við bætt okkur með því að kynna félagið. Sjávarútvegurinn býður upp á svo marga fleti. Íslendingar þurfa til dæmis nauðsynlega að fara að huga betur að markaðssetningu á sjávarafurðum. Til þess að gera það þurfum við hæft fólk til starfa innan greinarinnar. Þegar ég ræði við jafnaldra mína sem eru að koma út úr háskólanum verð ég var við það að þekking þeirra flestra á sjávarútvegi er takmörkuð. Þarna er verk að vinna fyrir Félag kvenna í sjávarútvegi,“ segir Agnes.

Freyja segir að til þess að gera störf innan sjávarútvegsins aðlaðandi fyrir ungt fólk sé að þar starfi fyrirmyndir af báðum kynjum. Innan greinarinnar er kynjahalli sem dregur úr áhuga kvenna að starfa við sjávarútveg. „Þessu þarf að breyta alveg frá efstu lögum til þeirra neðstu. Ungar konur þurfa að sjá að þeirra bíða tækifæri, ekki eingöngu upp að ákveðnu stigi heldur alla leið upp á toppinn.“

Freyja segir að þegar félagið var sett á laggirnar 2013 hafi konur í sjávarútvegi vart verið sýnilegar. „Núna hittumst við og ræðum saman og allar aðrar konur í sjávarútvegi vita af okkur. Ég held að félagið sé búið að sanna sig sem góðan vettvang til þess að koma á breytingum. Karlar í þessum geira eru meðvitaðir um það að eitt af okkar helstu markmiðum er að vinna að hag íslensks sjávarútvegs. Við erum mjög hæfar til þess að bæta ímyndina og gera sjávarútveginn ennþá betri en hann er. Æðsti draumurinn okkar er sá að félagið okkar verði óþarft og við leggjum sjálf okkur niður.“