Virgin Money Holdings, fjármálafyrirtæki í eigu breska auðjöfursins Richard Branson, hefur samþykkt að kaupa bankann Northern Rock fyrir 747 milljónir punda, jafnvirði tæpra 140 milljarða íslenskra króna.

Northern Rock var fyrsti bankinn til að fara á hliðina í aðdraganda fjármálakreppunnar í september 2007 eftir að upp komst að stjórnendur hans hefðu leitað eftir neyðarláni hjá breska seðlabankanum. Í kjölfarið gerðu viðskiptavinir áhlaup á bankann og tóku út innstæður sínar. Bankinn bugaðist og fór svo að breska ríkið þjóðnýtti hann. Ári eftir að Northern Rock lenti í vandræðum fór bandaríski fjárfestingarbankinn Lehman Brothers á hliðina.

Í byrjun síðasta árs var bankanum skipt upp í tvær einingar, viðskiptabankann Northern Rock sem nú er verið að selja, og eignastýringarfyrirtæki með sama nafni.

Félag Branson greiðir 150 milljónir punda í A-hluta eiginfjár bankans auk 80 milljóna punda á næstu fimm árum, samkvæmt upplýsingum Bloomberg.

Samkvæmt samkomulagi breska ríkisins við félag Bransons verður ekki gripið til uppsagna á starfsfólki á næstu þremur árum.