Yfirburðir Facebook meðal félagsmiðla eru algerir og einstakir. Af því hafa þó ýmsir nokkrar áhyggjur, bæði hvað varðar persónuvernd notendanna, en einnig af samkeppnisástæðum. Ekki er ósennilegt að félagsmiðlar sæti auknu regluverki á næstu árum.

Við lifum á tækniöld, þar sem netið og útbreiðsla snjallsíma hefur gerbreytt lífi og samfélagi og eru þó undrin víst rétt að byrja. Eitt helsta miðverkið í þessari nýju veröld eru félagsmiðlarnir svokölluðu, hin nýju samfélög.

Þar er Facebook í algerum sérflokki, en um þá ókeypis þjónustu gildir hið sama og hjá leitarrisanum Google, að það eru í raun þessir ókeypis notendur sem er verið að selja aðgang að, hvort heldur er með beinum auglýsingum, tenglum á netmiðla eða hvað annað. „Ef þú borgar ekki, þá ert þú varan,“ eins og einhver orðaði það svo skemmtilega.

Flestir notendanna átta sig sjálfsagt á því (ef þeir leiða hugann að því) og fella sig við það. Það eru kaup kaups og flestum finnst þeir vera að fá sitt í staðinn. Þar er aðgangur að vinum, ættingjum og víðara samfélagi, hvort heldur er fólkið í hverfinu, áhugamenn um Costco, átthagafélög eða flóamarkaðir. Og svo geta menn auðvitað tjáð sig um daginn og veginn, birt montmyndir og matarklám, fjölskyldumyndir til þess að gleðja frænkur í fjarskanum eða hvað annað. Þar á meðal má spjallað við netvinina.

Ótrúleg sigurganga

Um ótrúlega velgengni Facebook þarf ekki að hafa mörg orð. Í uppgjörskynningu í liðnum mánuði kom fram að reksturinn hefur aldrei gengið betur og tekjur, rekstrarhagnaður og arðsemi hafa aukist um nær 50% frá fyrra tímabili. Heita má að fyrirtækið veiti notendum sínum nauðsynlega þjónustu, en í júní fór notendafjöldinn á heimsvísu yfir 2 milljarða. Það er þó ekkert hjá þeirri tölfræði að meðalnotandinn ver um 50 mínútum á dag við þjónustur á vegum Facebook.

Allt er þetta nú gott og blessað, en samt eru ýmsir farnir að hafa áhyggjur af því hvort fólk hafi ekki gefið sig Facebook fullmikið á vald og að það verði trauðla aftur snúið með það.

Notendurnir læstir inni

Hitt er þó ekki síður að vefjast fyrir mönnum, sem er hvort Facebook hafi ekki af því beinan en óréttmætan ávinning af því að læsa notendurna inni.

Með því er átt við tvennt helst. Annars vegar að notendurnir geti eiginlega hvergi farið án þess að glata öllum færslum sínum, spjalli og skilaboðum, tengiliðum og öðru, sem staflast hefur þar upp í áranna rás. Það felur í sér miklar fórnir fyrir notendur og reisir nýjum hugsanlegum keppinautum Facebook himinháa samkeppnismúra.

Hitt er að félagsmiðlar eins og Facebook haldi notendum algerlega frá öðrum félagsmiðlum. Tæknilega er þannig ekkert því til fyrirstöðu að notendur Facebook Messenger geti spjallað við Twitter-notendur, en af markaðsástæðum kæmi Facebook það aldrei til hugar.

Ballið búið?

Það er afar ósennilegt að risar á borð við Facebook búi mikið lengur við slíkan munað. Til þessa hefur hið opinbera ekki mikið verið að skipta sér af þessum anga félagsmiðla, aðallega sjálfsagt vegna þess að hefðbundið samkeppniseftirlit á illa við félagsmiðla, þar er ekkert verð á þjónustu til notenda til að horfa til, bein einokun eða hringamyndun.

Þetta er hins vegar að breytast. Evrópusambandið tekur upp rammalöggjöf um gagnavernd í maí á næsta ári, en þar á meðal eru innifalin ákvæði um rétt notenda til þess að flytja gögn sín á milli þjónustuveitenda.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .