Situs, systurfélag Portusar og heldur utan um lóðir Austurhafnar við tónlistar- og ráðstefnuhúsið Hörpu, hefur tekið yfir félögin Hospes og Custos. Hospes heldur utan um fjármögnun og rekstur hótelbyggingar við Hörpu en Custos um eignarhald, fjármögnun og rekstur bílastæða við Austurhöfnina og miðborg Reykjavíkur.

Í tilkynningu um yfirtökuna í Lögbirtingablaðinu kemur fram að yfirtakan miðist við síðasta Nýársdag, 1. janúar árið 2012.

Enginn rekstur hefur verið hjá félögunum síðastliðin sjö ár og bera ársreikningar félaganna þess merki. Hospes tapaði tæplega 421 þúsund krónur í fyrra sem er sambærilegt tap og árið á undan. Eigið fé félagsins var neikvætt um rúmar 700 þúsund krónur  og skuldir álíka háar. Custos tapaði rúmlega 570 þúsund krónum í fyrra sem var 70 þúsund krónum meira en árið 2010. Eigið fé var neikvætt um rúmar 900 þúsund krónur í lok árs sem var álíka mikið og skuldirnar sem hvíldu á félaginu á sama tíma.