Guðrún Hafsteinsdóttir, markaðsstjóri Kjörís, rekur ísgerðina ásamt móður sinni, systkinum og föðurbróður. Hafsteinn Kristinsson, faðir Guðrúnar, stofnaði fyrirtækið ásamt nokkrum öðrum og hóf það starfsemi sína 31. mars 1969, ári áður en Guðrún fæðist. Kjörís var þó ekki fyrsta fyrirtækið stofnað af Hafsteini. Hann var menntaður mjólkurfræðingur en settist upprunalega að í Hveragerði þar sem hann stofnaði í fyrstu ostagerð. Að sögn Guðrúnar lifði ostagerðin hins vegar ekki af samkeppni við Mjólkursamsöluna og lagði því fljótlega upp laupana. Hafsteinn var þó ekki af baki dottinn og stofnaði í framhaldinu hina farsælu ísgerð sem jafnframt hefur verið staðsett í Hveragerði frá fyrstu stundu.

„Það sem dró foreldra mína upphaflega hingað til Hveragerðis var jarðhitinn. Faðir minn sá fyrir sér mikil tækifæri tengd honum og frá fyrstu stundu höfum við byggt starfsemi okkar á þessum jarðhita og notað gufu til að sjóða allar okkar blöndur,“ segir Guðrún. Fyrirtækið hefur að sögn Guðrúnar verið mjög farsælt frá fyrstu tíð. „Við byrjuðum smátt í 250 fermetra húsnæði. Hér hefur síðan verið byggt níu sinnum við eins og sjá má hér að utan,“  segir hún og bendir út á þakið sem sýnir skil í samræmi við viðbyggingar. „Við höfum ávallt stækkað við okkur eftir efnum og aðstæðum og störfum í dag í liðlega 5.000 fermetrum. Í upphafi vorum við með 7 starfsmenn og seldum um 10 vörutegundir. Núna erum við með 60 starfsmenn og framleiðum á bilinu 230- 240 vörutegundir.“

Fengu ekki tækifæri til að vinna úr íslensku smjöri

Þið notið mikið jurtafeiti í framleiðslunni ykkar, hvernig stendur á því?

„Pabbi var allaf mikill talsmaður landbúnaðarins og vildi vinna úr íslensku hráefni. Fita er nauðsynlegt hráefni í ísframleiðslu og ef þú notar smjör þá máttu kalla ísinn þinn rjómaís. Upphaflega framleiddi Kjörís þennan hefðbundna rjómaís og notaði til þess íslenskt smjör. Þegar fyrirtækið hafði hins vegar verið starfandi í sex mánuði ákvað verðlagsnefnd búvara að fella niður niðurgreiðslur á smjöri til ísgerðar á Íslandi. Á þessum tíma tilheyrði Emmess-ísgerð Mjólkursamsölunni og það má því vera nokkuð ljóst að þessi ákvörðun var einungis til höfuðs Kjörís. Eina fyrirtækinu sem var í samkeppni við Mjólkursamsöluna/ Emmessís. Þá voru góð ráð dýr.“

„Smjör varð gríðarlega dýrt hráefni og varan okkar allt í einu orðin mun dýrari en vara samkeppnisaðilans. Pabbi brá þá á það ráð að semja við sænskan kókosolíuframleiðanda og allar götur síðan höfum við notað jurtafeiti í lungann af okkar framleiðslu. Við erum oft spurð af hverju við erum að framleiða jurtaís en ekki rjómaís og það er einfaldlega vegna þess að við fengum ekki tækifæri til að vinna úr íslensku smjöri. Síðan þá hafa tímarnir náttúrlega breyst og í dag framleiðum við nokkrar vörur með smjöri og Emmess-ísgerð er orðin sjálfstæð eining út úr Mjólkursamsölunni. Við höfum þrátt fyrir það ákveðið að halda okkar sérstöðu og erum með jurtafeiti í langflestum okkar vörum.“

Viðtalið við Guðrúnu má lesa í fullri lengd í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið í pdf-formi undir Tölublöð.