„Þarna var jafnræðisreglan klárlega brotin,” sagði Jón Ólafur Halldórsson, forstjóri Olís, á fjármálaþingi Íslandsbanka í dag. Jón Ólafur lét þessi orð falla í pallborðsumræðum um samkeppni á smásölumarkaði og áhrif komu Costco á markað. Olís hafði sótt um leyfi fyrir því að opna bensínstöð í Kauptúni en fékk neitun frá Garðabæ. Þó fékk Toyota leyfi til að opna dælustöð hjá fyrirtæki sínu. Vísað var í það tiltekna leyfi þegar rökstuðningur barst fyrir leyfi sem Costco fékk að lokum fyrir dælustöð sína í Kauptúni.

Jón Ólafur nefndi að koma Costco hafi þó gert margt mjög gott fyrir íslenska verslun og þá aðallega að því leyti að aðilar í íslenskri verslun hafi þurft að endurskilgreina þjónustustig sitt: „Við höfum þurft að bregðast við og átta okkur á því þolinmæði fyrir biðröðum og það að keyra langt eftir vöru hefur aukist,” sagði Jón Ólafur. Þá nefndi hann að fólk væri tilbúið að bíða í 50 mínútur eftir eldsneyti í Costco. Olís byggði hins vegar á allt öðru viðskiptalíkani þar sem félagið væri með dreift net um allt land, sama verð á öllu landinu og bætti Jón Ólafur því við að ekki kæmi til greina að breyta þeirri verðlagningu.