Starfsferill Sigurðar Brynjars Pálssonar hjá BYKO byrjaði með sumarstarfi árið 1998 samhliða skóla.

„Ég vann lokaverkefni mitt í náminu fyrir BYKO, en það fjallaði um ABC kostnaðargreiningu, og svo þegar ég lauk náminu, þá buðust mér nokkur störf, og leist mér best á annars vegar starf hjá Búnaðarbankanum, sem þá var og hét og hins vegar hérna hjá BYKO,“ segir Sigurður, en hann útskrifaðist með B.Sc. gráðu í vörustjórnun frá Tækniháskóla Íslands árið 2001.

„Það sem réð úrslitum að ég þáði starfið hjá BYKO var að mér fannst fyrirtækið einfaldlega áhugavert og á skemmtilegum og lifandi markaði. Fyrirtækið er með innkaup alls staðar frá og hér er mikið um að vera. Ég sé ekki eftir því.“

Áður en Sigurður tók við forstjórastarfinu starfaði hann bæði sem framkvæmdastjóri vöruhúsa og vörustjórnunarsviðs BYKO, en einnig vöruhótelsins Bakkinn, sem starfaði undir móðurfélaginu Norvik. Sigurður segir vörustjórnun gera birgðakostnaðinn sýnilegri sem sé grundvallaratriði til að ná árangri fyrir fyrirtæki í verslunarrekstri.

Ekkert niðurfellt

„Við það náðist heilmikil hagræðing, því þegar þessi kostnaður varð að hluta breytilegur fyrir BYKO, vorum við komin með feikna öflugt stjórntæki,“ segir Sigurður sem nefnir einnig hve mikilvægt það hafi verið fyrirtækinu að hafa öflugan og samhentan eigendahóp.

„Ég held að þar skipti ástríðan miklu máli, sem kannski skortir frekar ef eignarhaldið er dreifðara. Við komumst í gegnum þessi svokölluðu hrunár, án þess að fá nokkra aðstoð og var ekkert niðurfellt. Sveigjanleikinn var mikill svo ákvarðanatakan var gerð á skömmum tíma. Fyrir utan það að upplýsa bankana um stöðuna og standa við okkar skuldbindingar, þá drógum við markvisst úr föstum kostnaði.

Það kostar að panta vörur í vöruhús og geyma hana þar, en vöruhúsastarfsemi snýst um að ná einhverjum takti í vöruflæðið og í því fólst hagræðingin, en símtöl um flýtipantanir og annað eyðileggja taktinn. Einnig fólst hagræðingin í því að við gerðum okkur betur grein fyrir aldurssamsetningu birgðanna, því það kostar að geyma úreltar vörur í vöruhúsi, alveg sama hver á það.“

Skipstjórnarstíll þar sem öskrað er út um lúguna

Þó að Sigurður Pálsson telji að almennt standi verslun og þjónusta sig vel, segir hann skort á leiðtogahæfni vera eina af þeim áskorunum sem íslensk fyrirtæki standi frammi fyrir.

„Skýr stefna og framtíðarsýn eykur tryggð starfsmanna. Stjórnunarstíllinn hefur verið að breytast, það er ekki þessi skipstjórnarstíll lengur, þar sem öskrað er út um lúguna, heldur erum við að vinna saman sem lið. Hver er í sínu vel skilgreinda hlutverki, með sömu sýn og markmið,“ segir Sigurður en segir jafnframt ekki neina stéttaskiptingu innan fyrirtækisins.

„Ég fer á kassann ef þess þarf, og skrifstofa mín er opin alla daga, hér þarf ekkert að panta tíma eða neitt slíkt.“ Spurður hvenær hann hafi síðast farið á kassa svaraði hann. „Ég fór bara á kassa fyrir tveimur vikum síðan á Akureyri.“ Sigurður segir yfirvofandi breytingar í verslun og þjónustu koma sér vel fyrir landsbyggðina. „Mikil tækifæri eru að skapast fyrir landsbyggðina, en með öflugu flutninganeti er hægt að koma vöru til skila innan sólarhrings á flesta staði.“

Nánar er rætt við Sigurð Brynjar Pálsson, forstjóra BYKO, í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublað, aðrir geta gerst áskrifendur hér .