Ekki verður gefið upp að svo stöddu hvaða fyrirtæki munu fá verðlaun Viðskiptablaðsins, sem frumkvöðlafyrirtæki ársins og sprotafyrirtæki ársins. Viðskiptablaðið gefur út veglegt tímarit af þessu tilefni, þar sem meðal annars er fjallað um Deaf Iceland.

Deaf Iceland er nýtt fyrirtæki sem á að gerbreyta Íslandi sem ferðamannastað fyrir döff ferðamenn. Orðið döff er notað um heyrnarlaust fólk sem talar táknmál, en að vera döff er að tilheyra samfélagi heyrnarlausra og líta á táknmál sem sitt fyrsta mál.

Stofnendur Deaf Iceland eru öll döff, en þeirra á meðal er Sigurlín Margrét Sigurðardóttir, fyrsta heyrnarlausa manneskjan til að taka sæti á Alþingi og táknmálsfréttaþula til margra ára. Ásamt Sigurlínu koma þau Magnús Sverrisson, Steinunn Lovísa Þorvalsdóttir, Trausti Jóhannesson og Bandaríkjamaðurinn Branic Keltz að Deaf Iceland, en þau hafa öll brennandi áhuga á ferðalögum. Fyrirtækið tók þátt í viðskiptahraðlinum Startup Tourism Reykjavík fyrir stuttu, en hugmyndin kviknaði þegar stofnendurnir hittu þrjá döff ferðamenn sem lýstu upplifun sinni af ferð sinni um hringveginn sumarið 2016.

„Þeim fannst sárlega vanta táknmál og jafnvel líka betra upplýsingaraðgengi fyrir döff í ferðaþjónustuna á Íslandi. Það var að mörgu leyti rétt, enda var hér ekki hægt að fá leiðsögn eða aðgengi að ferðaþjónustunni á táknmáli. Hér eru nær öll tungumál töluð í ferðaþjónustunni en ekki táknmál,“ segir Sigurlín Margrét. Hún segir stofnendur Deaf Iceland auðveldlega hafa getað sitt sig í spor ferðamannanna, enda sjálf döff. Þau hafi fundið fyrir því sama þegar þau litu í kringum sig, að döff ferðamenn væru einangraðir er þeir skoðuðu landið, menningu þess og sögu.

„Þannig var hugmyndin til. Við settumst niður og unnum að hugmyndinni heima við eldhúsborðið, eins og öll ferðaþjónusta á Íslandi hefur verið unnin á sínum fyrstu sentimetrum. Hugmyndin eins og hún er í dag hefur hins vegar mikið breyst frá upphaflegu hugmyndinni, sem er mjög gott. Þetta gefur líka af sér stórkostlegt tækifæri til náms og atvinnusköpunar í táknmálssamfélaginu á Íslandi,“ segir Sigurlín

Nánar má lesa um Deaf Iceland í tímaritinu Frumkvöðlar, sem kemur út eftir viku.  Áskrifendur munu, eftir viku, geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .