Ferðamannapúls Gallup sem mælir upplifun erlendra ferðamanna á Íslandi hefur aldrei mælst lægri. Hann lækkaði um 2,1 stig milli mánaða og er einkunnin í desember 80,6 stig af 100 mögulegum. Hann var 82,7 stig í október. Frá þessu er greint í frétt Gallup .

Í desember var Ferðamannapúlsinn hæstur meðal ferðamanna frá Spáni eða 85,9 stig. Þar á eftir komu Frakkar með 83,8 stig og þá Bandaríkjamenn, Þjóðverjar og Kanadamenn. Hins vegar var ferðamannapúlsinn lægstur meðal ferðamanna Malasíu, Singapúr og Írlandi.

Allir undirþættir Ferðamannapúlsins lækkuðu milli nóvember og desember, en mest lækka þó þeir þættir sem snúast að því hvort Íslandsferðin hafi uppfyllt væntingar, hvort að ferðin hafi verið peninganna virði sem og heildaránægja með Íslandsferðina, en heildaránægjuþátturinn fór í fyrsta sinn undir 80 stig.

Ánægðari með áramótin en jólin

Ferðamenn sem dvöldu á Íslandi yfir hátíðirnar voru spurðir hvort að það hafi uppfyllt væntingar þeirra að eyða jólunum eða áramótunum hér á landi.

Um 21% sagði að það að eyða jólunum á Íslandi hafi að öllu leyti uppfyllt væntingar og tæplega 37% sögðu að sögðu það hafa að miklu leyti uppfyllt væntingar þeirra. Naumlega 28% sögðu það hafa uppfyllt væntingar þeirra að einhverju leyti en tæp 15% sögðu að það hafi að litlu eða engu leyti uppfyllt væntingar þeirra.

„Hins vegar sögðu rúm 48% það hafa að öllu leyti uppfyllt væntingar sínar að eyða áramótunum á Íslandi og tæplega 34% sögðu það hafa að miklu leyti uppfyllt væntingar. Rúmlega 11% sögðu það hafa að einhverju leyti uppfyllt væntingar þeirra en naumlega 6% sögðu að það hafi að litlu eða engu leyti uppfyllt væntingar þeirra,“ segir að lokum í frétt Gallup.