Ferðamannapúls Gallup hækkar um tæp 3 stig frá því sem hann var í desember en einkuninn í janúar er 83,5 stig af 100 mögulegum en var 80,6 stig í desember. Þetta kemur fram í frétt Gallup um Ferðamannapúlsinn.

Pólskir ferðamenn ánægðastir

Þegar litið er til ánægju ferðamanna eftir þjóðerni, var Ferðamannapúlsinn í janúar hæstur meðal ferðamanna frá Póllandi eða 89,8 stig. Þar á eftir komu Spánverjar með 86,3 stig og þá Bandaríkjamenn, Ástralir og Danir.

Ferðamannapúlsinn er að þessu sinni lægstur meðal ferðamanna frá Hollandi, Svíþjóð og Kanada.

Undirþættirnir hækka allir

Allir undirþættir Ferðamannapúlsins hækka á milli mánaða. Mest hækka þættir sem snúa að því hvort ferðin hafi verið peninganna virði, hvort Íslandsferðin hafi uppfylt væntingar, sem og heildaránægja með Íslandsferðina, að því er kemur fram í frétt Gallup um málið.