Erlend greiðslukortavelta á Íslandi nam 16,8 milljörðum króna í febrúar sem er 27,5% hærri upphæð en í sama mánuði í fyrra. Hins vegar fjölgaði ferðamönnum í febrúar um heil 47,3% samanborið við febrúar í fyrra. Þetta kemur fram í úttekt Rannsóknarseturs verslunarinnar á kortaveltu ferðamanna.

„Dregið hefur úr vexti kortaveltu á hvern ferðamann og greinilegt að erlendir ferðamenn fara sparlegar með útgjöld sín en áður var. Auk gengisáhrifa, sem orsaka þessa þróun, hafa orðið verðlagshækkanir í krónum talið á gistingu, veitingaþjónustu og pakkaferðum innanlands. Þrátt fyrir minnkandi vöxt geta ferðaþjónustuaðilar enn vel við unað því umtalsverð aukning er í erlendri kortaveltu þegar á heildina er litið,“ segir í frétt RSV um málið.

Minni útgjöld ferðamanna

Síðustu tólf mánuði var meðaltalsaukning erlendrar kortaveltu 56% og því er 27,5% hækkun í febrúar talsvert undir því meðaltali. Ef litið er til meðaltals- kortaveltu á hvern erlendan ferðamann minnkaði hún um 13,4% í fyrra.

Verðhækkun á gistingu og veitingahúsum

Að mati RSV má minnkandi kortaveltu á hvern erlendan ferðamann að mestu rekja til styrkingar íslensku krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum. Verð á gistingu var þar að auki 9,5% í íslenskum krónum í febrúar miðað við sama mánuð í fyrra, samkvæmt mælingu Hagstofu Íslands.

„Samkvæmt sömu mælingu hækkaði verð á innlendum pakkaferðum um 12,8% á milli ára og verð á veitingahúsum hækkaði um 4,6%. Verð á flugfargjöldum fer hins vegar lækkandi og sem dæmi lækkaði verð á innanlandsflugi um 10,6%,“ er tekið fram í fréttinni.

Svisslendingar greiddu hæstar fjárhæðir

Ef tekið er mið af fjölda ferðamanna um Keflavíkurflugvöll greiddi hver þeirra að jafnaði 113 þúsund krónur með greiðslukorti sínu eða um 11,6% minna en í janúar. Það er um 13,4% lægri upphæð en í sama mánuði í fyrra.

Ferðamenn frá Sviss greiddu að jafnaði hæstar fjárhæðir með greiðslukortum sínum í febrúar eða 188 þúsund krónur á hvern ferðamann. Þá fylgja Bandaríkjamenn fast á hæla með 186 þúsund á hvern ferðamann. Kanadamenn koma þar næst með 170 þúsund á hvern ferðamann.

„Velta eftir þjóðernum ræðst meðal annars af því hversu löng dvölin hér á landi er og hvort greitt hafi verið fyrir ferðina áður en komið er til landsins auk þess sem mismunandi er í hve miklum mæli ferðamenn greiða með greiðslukortum. Þá þarf að hafa í huga að tölur um fjölda ferðamanna um Keflavíkurflugvöll ná ekki til allra þeirra sem koma til landsins,“ segir að lokum.