Töluvert hefur hægt á fjölgun ferðamanna síðustu misseri, þó enn sé fjöldi þeirra margfaldur á við það sem hann var fyrir áratug, og enn fari hann vaxandi. Ævintýraleg fjölgun undanfarinna ára hefur skapað umhverfi gríðarlegs uppgangs og jákvæðni í ferðaþjónustu. Samhliða þeirri þróun hefur gengi krónunnar hins vegar styrkst töluvert, og nú er svo komið að mörgum ferðamönnum finnst orðið Íslandsdvölin ansi kostnaðarsöm.

Áhrifin dreifast þó alls ekki jafnt. Fólk sækir enn mikið í ýmsar dagsferðir og hvalaskoðunarferðir, sem dæmi, enda finnst mörgum það órjúfanlegur hluti íslandsferðarinnar.

Kemur til að gera hluti
Jón Þór Gunnarsson, forstjóri Arctic Adventures, segir að enn sé næg eftirspurn eftir ferðum fyrirtækisins: „Okkar upplifun er sú að fólk spáir nokkuð mikið í verðin, en svo er það komið til Íslands og það vill fara á jökul, það vill fara að snorkla, það vill fara á snjósleða. Fólk er að koma hingað til lands til að gera hluti.“

Hann finnur hins vegar fyrir ákveðinni viðhorfsbreytingu: „Maður hefur svona tilfinningu fyrir því að það sé ekki fækkun kannski á ferðamönnum á landinu, heldur að innkaupahegðun ferðamanna sé að einhverju leyti að breytast og þeir virðast stoppa styttra við á Íslandi. Þeir spá mun meira í verðin, þeir virðast vera meðvitaðri um hátt verðlag og búnir að frétta af því hugsanlega á einhverjum spjallsíðum, þannig að þeir eru meira að athuga verð á vörum og leita eftir einhverjum afslætti og svoleiðis. Það er kannski svona helsta breytingin sem við sjáum. Þeir eru búnir að setja sér ákveðið „budget“ áður en þeir koma til landsins og svo velja þeir hvað passar inn í það.“

Eyða minna í veitingar
Gísli Úlfarsson, sem rekur verslunina Hamraborg á Ísafirði, segir sumarið hafa verið svona um það bil á pari við síðasta sumar, þótt hann hafi fundið aðeins fyrir HM-áhrifunum í júní. Eins og fleiri segist hann þó hafa séð mikil ummerki þess að ferðamenn séu orðnir meðvitaðri um verðlag og sparsamari. Hann nefnir að gosdrykkjavelta verslana Ísafjarðar hafi aukist, á sama tíma og hún hefur dregist saman hjá veitingastöðum bæjarins.

Gísli segir sögu af því að maður sem hann þekki til reki tvo veitingastaði í bæjarfélaginu, einn tiltölulega venjulegan, en annan fínni og dýrari. Sá dýrari hafi verið stútfullur allt síðasta sumar, en heldur rólegra hafi verið á þeim ódýrari. Í sumar hafi þetta hins vegar snúist við, ódýrari staðurinn sé alltaf fullur, en minna að gera á þeim dýrari.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .