Landsvirkjun lét Háskóla Íslands kanna áhrif Blönduvirkjunar á upplifun ferðamanna til svæðisins í kringum virkjunina síðasta sumar.

Sýnir könnunin að langflestir þeirra voru ánægðir með dvöl sína á svæðinu en aðeins 8% óánægð að því er fram kemur í skýrslu um málið sem þau Anna Dóra Sæþórsdóttir, Anna Mjöll Guðmundsdóttir og Þorkell Stefánsson hafa gert.

Sögðust 87% ferðamanna ekki hafa tekið eftir virkjuninni og tengdum mannvirkjum og telja 92% ferðamanna ósnortin víðerni hluta af aðdráttarafli svæðisins.

Er það þó þar megi sjá ýmis virkjunarmannvirki, en um 89% þeirra telja svæðið í kringum Blönduvirkjun náttúrulegt en um 7% telja það manngert.

Meirihlutanum finnst svæðið náttúrulegt

„Meirihluta ferðamanna finnst svæðið náttúrulegt og telur ósnortin víðerni vera hluta af aðdráttarafli svæðisins, þrátt fyrir að þar megi sjá virkjunarmannvirki á borð við lón, stíflur, veituskurði, vegi og raflínur.

Þess má geta að meðal ferðamanna voru flestir Þjóðverjar eða 35%, Frakkar um 11% og Íslendingar rúm 9%," segir í fréttatilkynningu Landsvirkjunar um málið.

„Könnunin leiddi m.a. í ljós að 87% sögðust ekki hafa tekið eftir virkjuninni og tengdum mannvirkjum og meirihluti sagði tilvist virkjunarinnar ekki hafa áhrif á áhuga sinn á því að ferðast um svæðið.“

Vildu kanna áhrif virkjana á upplifun ferðamanna

Anna Dóra, sem er prófessor í ferðamálafræði við líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands, er aðalhöfundur skýrslunnar, en markmið rannsóknarinnar var að kanna áhrifin af mannvirkjunum á upplifun ferðamanna af náttúru Íslands.

„Niðurstöður könnunarinnar voru bornar saman við niðurstöður sambærilegra kannana sem gerðar voru sumarið 2015 á sjö svæðum á landinu í tengslum við þriðja áfanga rammaáætlunar," segir í tilkynningunni.

Blönduvirkjun raskar ekki ímynd landsins

„Í ljós kom að um 92% ferðamannanna telja ósnortið víðerni vera hluta af aðdráttarafli Blöndusvæðisins og er þar um að ræða litlu lægra hlutfall en á þeim stöðum þar sem ekki hefur verið virkjað, en þar var hlutfallið á bilinu 93-98%.

Það virðist því sem að Blönduvirkjun raski ekki um of þeirri ímynd sem hálendið hefur sem ósnortið víðerni í augum ferðamannanna sem þar fara um."

Virkjanir og ferðamennska geti farið saman

Hörður Arnarsson, forstjóri Landsvirkjunar, segir þetta vera í fyrsta sinn sem svo viðamikil könnun sé gerð meðal ferðamanna á upplifun þeirra af virkjun í rekstri á Íslandi.

„Ljóst er að ef vel er staðið að hönnun geta virkjanir og ferðamennska farið vel saman," er þar haft eftir Herði.

„Mikilvægt er að nýjar byggingar og önnur mannvirki utan þéttbýlis hér á landi taki mið af verndun náttúru og falli vel að landslaginu á hverjum stað.“