*

mánudagur, 10. desember 2018
Erlent 4. ágúst 2017 17:21

Ferðamönnum fjölgar á alþjóðavísu

Segja má að Íslendingar standi fyrir 0,05% af öllum ferðamannastraumi í heiminum.

Ritstjórn

Á fyrstu fjórum mánuðum ársins fjölgaði ferðamönnum í heiminum um 6% og voru þeir um 369 milljónir á tímabilinu. Þetta kemur fram í frétt Túrista þar sem vísað er í nýja úttekt ferðamálastofnunnar Sameinuðu Þjóðanna. 

Fjölgaði ferðamönnum um 21 milljón á heimsvísu og var vöxturinn einna mestur í norðurhluta Evrópu eða 9%. Þar leggur Ísland sitt að mörkum en ferðamönnum fjölgaði um helming hér á landi á fyrsta þriðjungi ársins samkvæmt talningu Ferðamálastofu og nam fjöldin tæplega 606.000. Þess ber þó að geta að íslenski markaðurinn er lítill í evrópskum samanburði. 

Íslendingar á faraldsfæti

Það eru ekki einungis fleiri sem að koma til Íslands heldur virðist ferðagleði Íslendinga vera í hæstu hæðum. Á fyrstu fjórum mánuðum ársins flugu um 175.000 Íslendingar frá Keflavíkurflugvelli. Sterkt gengi krónunnar, aukinn kaupmáttur launa og aukið framboð af flugferðum til og frá landinu spilar eflaust stórt hlutverk í þessari miklu ferða gleði Íslendinga.

Ef miðað er þann fjölda sem flaug frá Keflavíkurflugvelli má segja að Íslendingar standi undir 0,05% af heildarferðmannastraumi í heiminum samkvæmt frétt Túrista. Hlutfallið er jafnvel enn hærra enda eru margir Íslendingar búsettir erlendis og fara því ekki í gegn um Keflavíkurflugvöll á ferðum sínum um heiminn. Á móti kemur að Íslendingar sem búsettir eru erlendis eru taldir sem heimamenn í talningu Ferðamálastofu á Keflavíkurflugvelli.

Stikkorð: Ferðamenn Íslendingar