Fjöldi erlendra ferðamanna í Tyrklandi jókst um 18% í apríl síðastliðnum miðað við síðasta ár. Þetta er í fyrsta sinn síðan í ágúst árið 2015 sem Tyrkir sjá fjölgun í komu ferðamanna.

Ástæðan fyrir tæplega 2 ára löngu samdráttarskeiði í tyrkneskum ferðamannaiðnaði má rekja til deilu þeirra við Rússa sem hófst með því að Tyrkir skutu niður rússneska orrustuflugvél við landamæri Tyrklands og Sýrlands. Eftir árásina bönnuðu rússnesk stjórnvöld ferðalög Rússa til Tyrklands. Á þeim tíma voru Rússar næst fjölmennastir af þeim ferðamönnum sem komu til landsins.

Ferðamannaiðnaðurinn spilar stórt hlutverk í tyrknesku efnahagslífi en árið 2016 var hann 12,5% af vergri landsframleiðslu landsins. Námu tekjur vegna erlendra ferðamanna 18,7 milljörðum dollara á síðasta ári.

Vonast tyrknesk stjórnvöld að vöxtur í ferðamannaiðnaði hjálpi til við að laga viðskiptahalla landsins sem nemur 4,7% af vergri landsframleiðslu Tyrklands.