Mikið er um nýskráningar hlutafélaga á landsbyggðinni upp á síðkastið. Flest hafa þau þann tilgang að starfa að ferðaþjónustu, hvort sem er gistiþjónustu, bílaleigu, veitingarekstri eða almennar ferðaskrifstofur. Ljóst er að Íslendingar eru að bregðast við hinni stórauknu umferð ferðamanna um landið, en í fyrra voru þeir í kringum milljón manns. Búist er við að þeir verði enn fleiri í ár.

Ótalin í þessari grein eru þó ferðaþjónustufélögin sem stofnuð voru í Reykjavík. Heil ellefu félög af þessu tagi. voru nýskráð í Lögbirtingablaðinu síðasta þriðjudag. Þar af voru þrjú þeirra skráð til lögheimilis á Akureyri og eitt um sig á Siglufirði, Hveragerði, Egilsstöðum, Borgarnesi, Selfossi, Höfn í Hornafirði, Patreksfirði og Seyðisfirði.

Akureyri, Grindavík og Hveragerði

Á Akureyri voru félögin Keyhouse, Akurinn Bus og Circle Air stofnuð. Fyrirtækið Keyhouse mun reka gistiheimili og félagið Circle Air mun reka ferðaþjónustu með áherslu á afþreyingu. Fyrirtækið Akurinn Bus mun starfa sem samgöngulausn fyrir ferðafólk, en aðallega fyrir það fólk sem notast við hjólastól.

Í Grindavík stofnaði Jósef Kristján Guðmundsson félagið KG bílar, en það mun starfa sem bílaleiga. Mikill vöxtur hefur verið í fjölda bílaleiga um land allt, en ferðamenn hafa ýtt verulega undir eftirspurn eftir slíkum fyrirtækjum.

Í Hveragerði stofnuðu Kristj­án Már Gunnarsson og Helga Sóley Viðarsdóttir fyrirtækið Sacred Iceland ehf., en fyrirtækið mun starfrækja ferðaskrifstofu með sölu á dagsferðum og lengri ferð­ um til ferðamanna. Þá var félag með hið skondna nafn Enginn ehf. stofnað á Selfossi, en það mun bjóða upp á gistiþjónustu auk húsbygginga og annarrar umsýslu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .