Þrátt fyrir að hagvöxtur á Íslandi hafi undanfarin ár verið kröftugur í samanburði við nágrannaríkin bendir ný skýrsla Viðskiptaráðs Íslands á að sjálfbærni hans sé ekki í takt við tillögur Íslandsskýrslu ráðgjafafyrirtækisins McKinsey fyrir fjórum árum.

Viðskiptaráð gaf í vikunni út ritið „Leiðin að aukinni hagsæld – Þróun efnahagsmála og framvinda umbóta frá útgáfu Íslandsskýrslu McKinsey“. Íslandsskýrslan kom út árið 2012 og var þar lagt mat á efnahagslega frammistöðu Íslands auk þess sem helstu tækifæri og áskoranir ólíkra hluta hagkerfisins voru kortlögð.

Tilgangur nýútgefins rits er meðal annars að fara yfir greiningar McKinsey, uppfæra þær og rýna í efnahagslega framvindu síðustu ára.

Einsleitur útflutningur áhyggjuefni

McKinsey taldi að tvöfalda þyrfti útflutningstekjur Íslands fyrir árið 2030 til að viðhalda kröftugum og sjálfbærum hagvexti og var rætt um hina svokölluðu „þúsund milljarða áskorun“ í þeim efnum. Þá skipti jafnframt máli hvernig þessum vexti útflutnings skyldi náð, ekki væri einungis hægt að keyra hann áfram á hinum svokallaða „auðlindageira“ sem telur sjávarútveg, orkunýtingu og ferðaþjónustu. Takmarkað eðli náttúruauðlinda setji vexti þessara atvinnugreina skorður og því þyrfti fyrst og fremst að horfa til „alþjóðageirans“, eða útflutnings sem ekki krefst aðgengis að náttúruauðlindum.

Hann [innsk. Alþjóðageirinn] byggir á hugviti en ekki staðbundnum náttúruauðlindum sem gerir fyrirtæki geirans hreyfanlegri á milli landa en fyrirtæki auðlindageirans. Ef auka á útflutning með sjálfbærum hætti þarf að stuðla að hröðum vexti alþjóðageirans

segir í riti Viðskiptaráðs.

Staðreyndin er hins vegar sú að nær allan útflutningsvöxt undanfarinna ára má rekja til ferðaþjónustu, eða alls 142 milljarða króna. Útflutningstekjur orkufreks iðnaðar og sjávarútvegs hafa dregist saman um 54 milljarða og útflutningstekjur alþjóðageirans, sem McKinsey lagði til að myndi bera uppi hagvöxtinn, einungis aukist um fjóra milljarða að raunvirði frá 2011. McKinsey hafði lagt til að alþjóðageirinn myndi vaxa um 125 milljarða á þessum tíma og auðlindageirinn um 58 milljarða.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .