Grímur Sæmundsen, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, segir oft gleymast hvað ferðaþjónustan sé búin að gera fyrir kjör almennings í landinu.

„Það er ekki langt síðan samið var um tuga prósenta launahækkanir á almennum markaði," segir Grímur. „Þegar þetta hefur verið gert hér á landi hefur þróunin venjulega verið eins. Það hefur myndast kaupmáttaraukning í skamman tíma á grundvelli neikvæðs viðskiptajöfnuðar, sem hefur venjulega leitt til gengislækkunar krónunnar. Þetta hefur síðan þýtt verðbólgu sem hefur étið upp kaupmáttinn á skömmum tíma.

Nú er ferðaþjónustan búin að rjúfa þennan vítahring. Jafnvel þó vöruskiptajöfnuður hafi verið neikvæður um tæpa 90 milljarða fyrstu níu mánuði ársins þá er krónan að styrkjast, sem þýðir að það er engin verðbólga og kaupmátturinn helst. Það eru allt aðrir hagkraftar í þessu landi okkar núna en voru áður og mér finnst raunverulega enginn vera að tala um það. Búið er að færa þjóðinni alveg gríðarlegar kjarabætur með því að viðhalda kaupmættinum. Svo ég tali nú ekki um fjölgun starfa í ferðaþjónustunni. Ég held að það sé alveg óhætt að segja að hún hafi valdið því að hér er nánast ekkert atvinnuleysi. Vegna þessa sparaði ríkið á síðasta ári á bilinu 3 til 4 milljarða, sem annars hefðu farið í greiðslur atvinnuleysisbætur."

Skárra en það var

Spurður hvort honum þyki ferðaþjónustan, sem atvinnugrein, njóta sannmælis í þjóðfélagsumræðunni og hjá stjórnvöldum svarar Grímur: „Nei, en þetta orðið skárra en það var og er á réttri leið. Ég hef verið formaður Samtaka ferðaþjónustunnar frá því mars 2014 og umræðan hefur mikið breyst bara á þeim stutta tíma sem liðinn er — það er himinn og haf. Maður finnur að stjórnmálamenn eru allavega farnir að mynda sér skoðun á þessari atvinnugrein. Ef maður ber saman aðdraganda alþingiskosninganna 2013 og núna þá er mikill munur á umræðunni hvað ferðaþjónustuna snertir. Það var enginn að tala um hana fyrir rúmum þremur árum."

Grímur bendir að að samkvæmt útreikningum Samtaka ferðaþjónustunnar muni skatttekjur ríkissjóðs af ferðaþjónustunni nema 70 milljörðum króna á þessu ári.

„Í þessu ljósi finnst manni skjóta svolítið skökku við að það eina sem margir stjórnmálamenn tali um sé gjaldtaka af ferðamönnum. Það þarf að tala um greinina sem eina heild og hlúa að henni. Þetta er sjálfsprottin atvinnugrein sem hefur ekki notið neinna ívilnana frá hinu opinbera.

Tvær flugur í einu höggi

Grímur segir að brýnasta úrlausnarefni stjórnvalda gagnvart ferðaþjónustunni sé uppbygging samgönguiðnviða.

„Það góða við ferðaþjónustuna er að innviðauppbyggingin sem hún krefst er ekki sértæk heldur nýtist hún öllum landsmönnum. Á ég þá við bætt vegakerfi, bætt heilbrigðiskerfi og bætta löggæslu. Með því að setja fjármagn í þessa uppbyggingu er verið að slá tvær flugur í einu höggi. Það er verið að hlúa að ferðaþjónustu og bæta lífsgæði borgaranna í landinu."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .