Á síðasta ári nam hlutur ferðaþjónustu í landsframleiðslu 8,4% samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðu Hagstofu Íslands . Árið 2015 nam hluturinn 6,7% og 5,6% árið 2014. Þar sem greinin er samsett grein í útreikningum stofnunarinnar er þar lagt saman tiltekið hlutfall af starfsemi annarra atvinnugreina í þeim tilgangi að geta greint betur slagþunga greinarinnar í gangverki hagkerfisins.

Ef borin saman við aðrar greinar sést að ferðaþjónusta er næst á eftir Heild- og smásöluverslun í samanburði á hlutfalli atvinnugreinahópa í landsframleiðslu, en Heild- og smásöluverslunin er með yfir 10% hennar. Næst á eftir koma svo Framleiðsla önnur en fiskvinnsla og svo Heilbrigðis- og félagsþjónusta sem bæði eru með rétt undir 8 af hundraði en loks eru fiskveiðar og fiksvinnsla með í kringum 7 af hundraði.