Ferðaþjónustan hefur vaxið fiskur um hrygg síðustu áratugi og verið með þeirra greina sem hafa vaxið hvað hraðast í heiminum. Greinin hefur skapað störf og gjaldeyristekjur, og staðið að baki umtalsverðum hagvexti og samfélagsþróun í mörgum löndum. Vegur greinin á heimsvísu um 10% af landsframleiðslu, 7% af gjaldeyristekjum vegna útflutnings á vöru og þjónustu og á vinnumarkaði starfar einn af hverjum ellefu við greinina. Þetta kemur fram í nýrri úttekt Greiningar Íslandsbanka á ferðaþjónustunni á alþjóðavísu.

Greining Íslandsbanka bendir á að alþjóðlegum ferðamönnum fjölgaði árið 2016 um 3,9% og var það sjöunda árið í röð sem vöxtur mældist. „Hefur ekki mælst jafn langt samfellt vaxtarskeið á þennan kvarða síðan á sjöunda áratug síðustu aldar. Var heildarfjöldi ferðamanna í heiminum 1.235 milljónir í fyrra og fjölgaði um 46 milljónir frá árinu 2015. Þess má geta að alþjóðlegir ferðamenn í heiminum voru 25 milljónir árið 1950. Kemur þetta fram í gögnum sem World Tourism Organization (UNWTO) hefur birt,“ segir í greiningunni.

UNWTO spáir því enn fremur að alþjóðlegum ferðamönnum fjölgi um 3 til 4 prósentustig í ár, og að árlegur vöxtur ferðamanna fram til ársins 2030 verði ríflega 3% og að heildarfjöldi ferðamanna í heiminum verði þá orðinn 1,8 milljarðar. Hlutfall alþjóðlegra farþega af heildaríbúafjölda í heiminum verður þá orðið ríflega fimmtungur árið 2030, að því gefnu að spá stofnunarinnar gangi eftir.

Fjölgun alþjóðlegra ferðamanna hér á Íslandi var 40% í fyrra eða ríflega tífalt hraðari en í heiminum öllum. Munurinn í ár verður jafnframt talsverður ef spár ganga eftir. Íslandsbanki gerir ráð fyrir 30% vexti í fjölda ferðamanna þetta árið sem er 8 til 10 sinnum meiri vöxtur en UNWTO spáir að verði í fjölda ferðamanna í heiminum. Fjöldi alþjóðlegra ferðamanna sem komu hingað til lands var 0,1% af heildarfjölda alþjóðlegra ferðamanna í heiminum í fyrra.

„Langtímaspár um fjölgun alþjóðlegra ferðamanna í heiminum gefa tilefni til bjartsýni varðandi vöxt ferðaþjónustunnar hér á landi litið til lengri tíma. Ísland er ekki uppselt m.t.t. samgangna, gistirýmis eða auðlindanýtingar á þessu sviði. Í þessu ljósi eru tækifærin mikil fyrir Ísland í stórum og hratt vaxandi markaði alþjóðlegrar ferðamennsku,“ segir í greiningu Íslandsbanka.