*

þriðjudagur, 17. október 2017
Innlent 10. maí 2006 10:08

Fermetraverð í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu

hækkar úr fjögur þúsund í 206 þúsund á 24 árum

Ritstjórn

Þróun fasteignaverðs á höfuðborgarsvæðinu hefur verið sú að verð á fasteignum hefur tekið miklum breytingum upp á við frá 1981 en með nokkrum undantekningum.

Þróun einfalds meðaltals fermetraverðs íbúða í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu, samkvæmt könnunum Fasteignamats ríkisins, eru nokkuð athyglisverðar. Frá janúar 1981 hefur staðgreiðsluverð íbúða í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu farið úr 4.129 krónum á hvern fermetra í 206.602 krónur í nóvember 2005, á verðlagi hvers árs. Hafa ber þó í huga að verðgildi krónunnar hefur líka tekið verulegum breytingum á þessu tímabili sem og allt verðlag í landinu, en tölurnar eru eigi að síður sláandi.

Þróunin var oft fremur hæg á fyrri hluta þessa tímabils og jafnvel neikvæð á stundum eins og frá nóvember1994 þegar verðið var 73.064 og allt fram í ágúst 1996 þegar verðið fór að hækka á ný og komst í 74.384 krónur á fermetra. Það féll svo aftur mánuði seinna og náði sér ekki á strik að nýju fyrr en í janúar og febrúar árið 1998 þegar það komst upp í 75.652 krónur. Í desember 1998 var fermetraverðið 79.013 krónur og fór síðan ört stígandi út allt árið 1999 og endaði í desember það ár í 97.115 krónum.

Tvöföldun á fimm árum

Verðið skreið fyrst yfir 100 þúsund króna múrinn um mánaðamótin janúar og febrúar árið 2000. Í árslok 2000 var verðið svo komið í 108.696 krónur. Það komst síðan í 111.953 krónur í febrúar 2001 og í 111.979 krónur í apríl það sama ár. Það hélst síðan nær stöðugt til ársloka 2001. Frá febrúar 2002 hækkaði verðið nær stöðugt og var komið í 122.047 krónur í árslok sama ár. Áfram hélt ævintýrið og í árslok 2003 var fermetraverðið í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu komið í 133.403. Verulegur kippur varð síðan á síðustu mánuðum ársins 2004 með tilkomu breyttra lánamöguleika og endaði fermetraverðið það ár í 160.042 krónum.

Árið 2005 var líka ár nær stöðugra hækkana og í júlí komst fermetraverðið í fyrsta sinn yfir 200 þúsund króna múrinn. Þegar síðasti mánuður ársins 2005 gekk í garð var fermetraverðið komið í 206.602 krónur og hefur síðan enn verið að aukast þó teikn séu um að hægt hafi verulega á verðhækkunum, í bili að minnsta kosti.