Fyrstu íbúðirnar í nýrri Hlíðarendabyggð munu fara í sölu í september. Um er að ræða 40 íbúðir í byggingu sem verður með heimilisfangið Hlíðarendi 4, en hún er á svokölluðum B reit framkvæmdasvæðisins.

Brynjar Harðarson, formaður Valsmanna ehf., sem standa að framkvæmdinni segir Hlíðarendabyggð vera eitt stærsta íbúðabyggingarverkefni sem er í gangi á Íslandi og að heildarbyggingarmagnið verði um 100 þúsund fermetrar þegar upp verði staðið.

„Þetta eru allt tveggja til þriggja herbergja íbúðir fyrir fyrstu kaupendur. Þær eru 58 og 85 fermetrar að stærð,“ segir Brynjar um nýju bygginguna sem þó er bara rétt byrjunin. „Eins og staðan er núna eru áætlaðar 780 íbúðir á svæðinu, með tilkomu skipulagsbreytinga sem komu í vor. Þær gefa færi á að auka fjölda íbúða um 20% á þéttingarsvæðum í Reykjavíkurborg.“

Brynjar segir nauðsynlegt að byggja litlar íbúðir til að leysa íbúðarkreppuna. Hann svarar spurningunni um væntanlegt verð íbúða á svæðinu á þá leið að það verði einfaldlega markaðsverð og segir athyglisvert að skoða á hvaða verði íbúðir í jafnvel kjöllurum og risum í Hlíðunum og þar í kring fari á.

„Íbúð í kjallara í Norðurmýrinni, byggð kringum 1940, 80 cm niðurgrafin, án fullrar lofthæðar og ekki með neina einangrun í gólfum, né hljóðeinangrun, kostar meira en 600 þúsund krónur á fermetrann,“ bendir Brynjar á. „Eftir því sem íbúðirnar verða minni, þá er fermetraverðið hærra, en hugmyndafræðin á bak við Hlíðarendabyggðina er borgaralegt líferni, þar sem hægt er að ganga beint út á götu, en hafa góðan bakgarð, aðgengi í göngufjarlægð í verslanir og veitingahús því þannig vill unga fólkið í dag búa.“

Brynjar segir að framkvæmdirnar hjá sumum byggingaraðilum hafi tafist vegna eignaskipta en jarðvegsvinna er langt komin á tveimur af fjórum stóru íbúðarreitunum og búið að setja jarðvegspúða undir. Til að mynda geti nú framkvæmdir á svokölluðum D reit hafist.

„Búið er að samþykkja allar teikningar þar og verður byrjað eftir verslunarmannahelgina að setja upp krana og annan undirbúning,“ segir Brynjar en byggingarsvæðið utan eiginlegs íþróttasvæðis Vals skiptist í reiti A til G sem eru komnir mislangt á veg í framkvæmdum, en íbúðarreitirnir C, D, E og F eru hringhús byggt eftir svokölluðu randafyrirkomulagi sem á að verða einkennandi fyrir svæðið.

„Við erum nú búnir að selja þær fjórar lóðir, en við erum meðfjárfestar á einni þeirra, F reit sem fer í byggingu eftir áramót, hugsa ég. Við erum að klára jarðvegsframkvæmdir á henni.“

E reitur er í eigu Alvogen og Hilmars Kristinssonar fjárfestis, en yst á svæðinu eru svokallaðir G og H reitir, sem annars vegar er í eigu Reykjavíkurborgar og hins vegar í eigu Jóhanns Halldórssonar fjárfestis sem stefnir að byggingu hótels á reitnum. A reitur er ætlaður fyrir atvinnustarfsemi með möguleika á að byggja þar stúdentagarða. Brynjar segir ekki komið á hreint hvað verði á honum. „Hann er bara í skoðun, smá biðstöðu.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .