Stofnandi fyrirtækisins Papaya, Magnús Sigurbjörnsson, segir að fyrirtækið komi til með að leggja áherslu á að bjóða upp á sérhæfðar lausnir á samfélagsmiðlum ásamt því að auka ásýnd fyrirtækja á samfélagsmiðlum. „Manni finnst að mörg fyrirtæki gætu gert betur þar. Það eru til margar leiðir á samfélagsmiðlum til þess að nota og hjálpa fyrirtækjum að verða sýnilegri en þau eru í dag,“ segir Magnús.

Magnús stendur einn að baki fyrirtækinu til að byrja með, hann telur það best að stíga rólega til jarðar. „Papaya vill koma inn í fyrirtæki og sjá hvað hægt er að gera fyrir viðkomandi. Ég tek stöðuna með viðskiptavinunum og sé hvað af lausnum Papaya getur hentað þeim og hvernig er hægt að gera enn betur,“ bætir hann við.

Kynntist samfélagsmiðlum í gegnum stjórnmálastarf

Magnús kynntist samfélagsmiðlum í gegnum stjórnmálastarf. Hann var áður framkvæmdastjóri borgarstjórnarhóps Sjálfstæðisflokksins og stjórnaði meðal annars samfélagsmiðlabaráttu flokksins í síðustu tvennum Alþingiskosningum.

„Ég kynntist þannig félagsmiðlum af eigin raun. Ég hef alltaf haft mjög mikinn áhuga á þessum vettvangi og mig langaði að kafa dýpra í hann. Ég veit að það eru einhver fyrirtæki þarna úti sem eru að sinna sínum fyrirtækjum á þessu sviði. Ég er með tölvunarfræðibakgrunn og mér finnst fáir með þann bakgrunn í samfélagsmiðlageiranum. Því tekur maður þetta aðeins tæknilegra,“ segir Magnús.

„Vonandi lendir það ekki á mér“

Magnús segir að hugmyndin að baki nafninu hafi kviknað í kjölfar þess að hann smakkaði ferskt papaya í fyrsta sinn á ferðum sínum um Kólumbíu fyrir einu og hálfu ári síðan.

„Mér fannst það alveg yndislegt. Það var kannski ekki fyrsta hugmyndin að nafni, en ég hugsaði: Af hverju ekki? Ég mundi bara hvað mér fannst papayað gott svona ferskt, það þyrfti einhver að fara að flytja það inn svona ferskt, vonandi lendir það ekki á mér,“ segir hann og hlær.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .