FIFA mun þéna um 540 milljarða króna vegna heimsmeistarakeppninnar í Rússlandi næsta sumar sem skila mun um 95% af tekjum FIFA á árunum 2014-2018. Rússar yfirvöld hafa hins vegar gefið út að útgjöld Rússa vegna mótsins muni nema um 1.200 milljörðum króna en fá afar takmarkaðar tekjur beint upp í þann kostnað. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Íslandsbanka um fjármál HM.

Þar kemur fram að kostnaður við byggingu leikvanga sé kominn 150% fram úr áætlunum sé leiðrétt fyrir falli rúblunnar, sem sé í tak við meðalframúrkeyrslu ólympíuleika síðustu 50 árin. Áætlað er að leikvangarnir kosti um 540 milljarða og aðrir 500 milljarðar fari í lestar-, bíla- og flugsamgöngur. Ríkissjóður Rússlands leggur til tæp 60% af kostnaðnum vegna mótsins, sveitarfélög og héruð um 14% og einka- og ríkisrekin fyrirtæki afganginn.

Í skýrslunni er velt upp hvort fjárfestingar í innviðum sem ekki tengist knattspyrnu beint geti borgað sig, því ljóst megi vera að fjárfestingar í knattspyrnumannvirkjum geri það varla. Rússar hyggjast leggja um 20 milljarða króna í að halda leikvöngum opnum og í reglulegri notkun að loknu móti þar sem þeir eru allt of stórir fyrir rússneskan fótbolta og liðin sem eiga að taka við þeim segir í skýrslunni.

„Fjárfestingar í innviðum, svo sem samgöngum, geta vissulega verið arðbærar en hvort líta eigi á þær sem kostnað vegna Heimsmeistaramótsins fer að hluta eftir því hvort við trúum því að án HM hefði samt sem áður verið ráðist í þær. Þarf stórmót í íþróttum til að sannfæra stjórnmálamenn um að ráðast í skynsamlegar og arðbærar innviðafjárfestingar? Ef þær eru svona arðbærar, hvers vegna var ekki löngu búið að ráðast í þær?” spyr Íslandsbanki.