Danski bankinn FIH Erhvervsbank hagnaðist um 116,6 milljónir danskra króna á fyrri helmingi þessa árs. Það er aukning frá því á sama tíma í fyrra, þegar hagnaður bankans nam 88,8 milljónum danskra króna. Þetta kemur fram í uppgjöri bankans vegna fyrri árshelmings.

Hagnaður FIH af reglubundinni starfsemi var ekki nema 0,4 milljónir danskra króna. Hins vegar hafði það mikil og jákvæð áhrif á afkomu bankans að virði svokallaðs Property Finance eignasafns var aukið í bókum félagsins. Auk þess var lítill hluti þeirra eignaniðurfærslna sem gerðar hafa verið á undanförnum árum dreginn til baka á fyrri helmingi þessa árs.

Þessar virðisbreytingar eru athyglisverðar, sé litið til þess að árið 2010 seldi Seðlabankinn FIH fyrir 5 milljarða danskra króna með þeim skilmálum að allt að 3,1 milljarður af söluverðinu væri í formi seljendaláns og tengdur virðisþróun eigna bankans á tímabilinu frá 30. júní 2010 til 31. desember 2014.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .