„Það er alveg magnað og í rauninni kraftaverk hvernig ferðaþjónustunni hefur tekist að mæta þessari ótrúlegu fjölgun ferðamanna," sagði Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, á fundi Samtaka ferðaþjónustunnar.  Hún sagði að undanfarið hefði umræðan um ferðaþjónustuna verið of neikvæð. Ef taka ætti mark á henni væri eins og allt væri að fara á verri veg "lóðbeint til helvítis ef marka má sumar fréttir."

Ragnheiður Elín sagði að ferðaþjónustan stæði vissulega frammi fyrir ýmsum áskorunum og ýmis álitamál sem takast þyrfti á við.

„Og þar ofarlega á blaði er vitanlega fíllinn í postulínsbúðinni — spurningin um það hvort og þá með hvaða hætti við ætlum að haga gjaldtöku af ferðamönnum," sagði hún. „Ég verð að viðurkenna það núna að fyrir mér er þetta ekki efsta málið á verkefnalistanum enda ljóst að greinin er að skila umtalsverðum fjármunum til ríkisins í formi skatta. Sem dæmi þá jukust tekjur af virðisaukaskatti af ferðamönnum um 10 milljarða á milli áranna 2014 og 2015. Bara aukningin, þannig að við sjáum að til viðbótar við aðra skatta af greininni nema heildartekjur ríkisins af ferðaþjónustunni tugum milljarða króna á ári og því vel forsvaranlegt að taka nokkur hundruð milljónir af þeim tekjum í innviðauppbygginguna líkt og við erum að gera."

Ragnheiður Elín sagði að ef nauðsynlegt talið sé nauðsynlegt að ríkissjóður afli frekari tekna til að standa straum af kostnaði við uppbyggingu innviða þá þyrfti að taka af skarið og velja leið eða leiðir „með öllum þeim kostum og göllum sem þeim fylgja. Og talandi um ábyrgð – þá er rétt að minna á að endanlegt mat á því hvort að þörf sé á frekari tekjuöflun er hjá fjármála- og efnahagsráðherra og skattlagningarvaldið er hjá Alþingi."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .