Talið er að fimm dómarar hafi átt í viðskiptum með hlutabréf í íslensku bönkunum fyrir hrunið 2008, en meðal þeirra eru þeir Markús Sigurbjörnsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson. Fjallað var ítarlega um viðskipti Markúsar í Kastljósi Ríkisútvarpsins í kvöld.

Dómurum ber að tilkynna um öll viðskipti sem hlutabréf sem eru umfram 3 milljónir króna. Svo virðist samt sem áður að tilkynningar um það hafi ekki borist nefnd um dómarastörf, sem á að halda utan um upplýsingar sem þessar. Þessi nefnd er skipuð af einum fulltrúa af ráðherra, einum fulltrúa dómarafélagsins og einum fulltrúa lagadeildar Háskóla Íslands.

Markús og Sjóður 9

Árið 2007 átti Markús hluti að verðmæti um 50 milljónir króna í bankanum, en síðar á árinu seldi hann hluti sína í tveimur áföngum fyrir samtals 44 milljónir króna. Peningana notaði hann þó áfram í fjárfestingarskyni, en hann fjárfesti þá aðallega í Sjóði 9 og Sjóði 10 hjá Glitni. Um er að ræða fjárfestingar fyrir um 60 milljónir króna, en um 52 milljónir fóru í Sjóð 9.

Markús þurfti þó að losa um stöður í sjóðunum vegna lausafjárskorts í ágúst 2008, sem var tilkominn vegna rúmlega fjögurra milljóna króna fjármagnstekjuskatts. Seinna á árinu hóf Markús þó að losa um enn meira í sjóðunum, eða stuttu fyrir þjóðnýtingu Glitnis sem átti sér stað 29. september 2008. Markús losaði þá um 15 milljónir króna, en sat eftir með 44 milljónir króna í sjóðum Glitnis. Áætlað tap Markúsar hefur verið á bilinu 7 til 10 milljónir króna.

Dæmdi í hrunmálum tengdum Glitni

Þau ár sem Markús átti í viðskiptum við Glitni og einkabankaþjónustu bankans, var hann allan tímann dómari við Hæstarétt, fyrst varaforseti réttarins og svo forseti. Dómarar hafa áður vikið sæti vegna hugsanlegra tengsla við fyrirtæki eða fólk sem tengjast málunum. Engin dæmi eru þó um það að Markús Sigurbjörnsson hafi lýst sig vanhæfan til að fjalla um mál tengd Glitni.