Ekki liggur fyrir að fullu hverjir standa að baki þeim þremur sjóðum sem keyptu á dögunum 29,18% hlut í Arion banka, en þó er hægt að finna einhverjar upplýsingar um endanlega eigendur. Viðskiptablaðið hefur safnað saman þeim upplýsingum sem fyrir liggja opinberlega, en hefur einnig fengið nánari svör hjá einu sjóðafyrirtækjanna.

Þann 19. mars síðastliðinn var greint frá því að lokuðu útboði á hlutum í Arion banka væri lokið og að Kaupskil ehf., dótturfélag Kaupþings, hefði þar selt áðurnefndan hlut í Arion til fjögurra fjárfesta.Það voru Attesstor Capital, Taconic Capital Advisors, Och-Ziff Capital Management Group og Goldman Sachs. Þessir aðilar hafa allir sagt að raunverulegir eigendur fjármuna, sem fjárfestir voru í Arion banka, séu allir erlendir aðilar samkvæmt skilgreiningu laga, en erfitt hefur verið að fá nánari upplýsingar um endanlega eigendur þessara fjármuna.

Taconic Capital er stærsti hluthafinn í Kaupþingi með 38,64% eignarhlut um síðustu áramót. Breskt dótturfélag, Taconic Capital Advisors UK LLP, sem er stýrt af Frank Brosens, fer með eignarhlutinn í Arion og hefur ákvörðunarvald um fjárfestinguna. Beinn eignarhlutur Taconic í Arion banka er 9,99%. Taconic safnaði fjármunum í sérstakan lokaðan hliðarsjóð til að fjárfesta í Arion og er þessi sjóður um 150 milljónir dollarar að stærð. Komið hefur fram í við- tölum við Frank Brosens, einn af stofnendum og forstjóra Taconic, að fjárfestarnir séu 20-30 talsins í þessum sjóði.

Samkvæmt upplýsingum frá Taconic eiga fimm aðilar meira en fimmtíu prósent hlut í þeim hliðarsjóði sem heldur utan um fjárfestinguna í Arion banka. Það eru norður-amerískur lífeyrissjóður, asískur lífeyrissjóður, Frank Brosens stofnandi Taconic, bandarískur sjóðasjóður og bandarísk fjölskylda. Samanlagt eru þessir fimm fjárfestar með meira en 50% hlut í hliðarsjóði Taconic. Engir íslenskir fjárfestar hafa lagt fé í hliðarsjóð Taconic, né í aðra sjóði á vegum fyrirtækisins, samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækinu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.