Þeir fimm sem greiða mest í skatt vegna síðasta árs borga samanlagt nálega milljarði króna.

Það eru þau Árni Harðarsson, Christopher M. Perrin og Sigurdór Sigurðsson allir búsettir í Reykjavík, Jakob Már Ásmundsson Hafnarfirði og Þórir Garðarsson Mosfellsbæ og greiða þau samtals 982.151.998 krónum.

Mesta fjölgun framteljenda frá hruni

Ríkisskattstjóri hefur skilað álagningarskrá opinberra gjalda mánuði fyrr en undanfarna áratugi, en kærufrestur hefur jafnframt verið lengdur. Á skattagrunnskrá eru 277.606 framteljendur en þeir hafa aldrei verið jafnmargir. Fjölgaði framteljendum um 5.800 einstaklinga eða 2,1% milli ára sem er mesta fjölgun frá efnahagshruninu 2008.

Framtalsskil hafa batnað mikið á síðustu árum en að þessu sinni voru 11.762 einstaklingar sem ekki skiluðu skattframtali og sæta áætlun opinberra gjalda, eða 4,24% af heildarfjölda, sem er svipað og undanfarin ár. Rafræn skattframtöl eru orðin 99,72% af öllum framtölum og pappírsframtöl því nálega horfin.