Hlutdeild Asíu í fiskveiðum á heimsvísu er um 55% eða sem nemur 51 milljón tonna. Hefur hlutdeild heimsálfunnar aukist um þrettán prósentustig frá árinu 1990.

Á eftir Asíu kemur svo Ameríka með átján milljónir tonna – eða 19% - og Evrópa með fjórtán milljónir tonna - 15%.

Á meðan Asía hefur aukið hlutdeild sína í fiskveiðum á heimsvísu hefur hlutdeild Ameríku og Evrópu minnkað. Hlutdeild Ameríku hefur minnkað um nú prósentustig frá árinu 1990 og hlutdeild Evrópu hefur minnkað um átta prósentustig á sama tímabili.

Á árinu 1990 voru 42% af veiðum á botnfiski á heimsvísu stundaðar í Evrópu en vegna mikils uppgangs Asíu og Ameríku í veiðum á heimsvísu hefur hlutfallið lækkað niður í u.þ.b. þriðjung.

Ísland skipar 17. sæti

Fimm þjóðir veiða rúmlega þriðjung afla á heimsvísu. Ísland er í 17. sæti meðal stærstu fiskveiðiþjóða heims með um 1,3% hlutdeild.

Kína er stórtækasta fiskveiðiþjóð heims en þjóðin veiddi um 17,4 milljónir tonna eða um 19% af veiðum á heimsvísu árið 2017. Þar á eftir koma svo Indónesía, Bandaríkin, Indland og Rússland en veiðar þessara fimm stærstu fiskveiðiþjóða heims voru á árinu 2017 samanlagt um 38 milljónir tonna eða rúm 36% af veiðum á heimsvísu.

Ísland hefur færst ofar á þessum lista síðustu ár og hefur því aukið veiðar sínar umfram aðrar þjóðir á listanum. Fiskveiðar Íslands jukust um 10% á milli ára.

Heimild: Íslandsbanki: Íslenskur sjávarútvegur 2018