Yngsti milljarðamæringur heims er 21 árs gömul kona frá Noregi að nafni Alexandra Andresen en eignir hennar umfram skuldir nema 1,3 milljörðum dala að þvi er kemur fram á lista Forbes yfir milljarðamæringa. Ekki þarf að leita langt að næst yngsta milljarðamæringi heims þvi það er systir Alexöndru, Katharina Andersen sem einnig á 1,3 milljarða en hún er 22 ára gömul.

Systurnar eru dætur Johan Andresen sem færði 42% af hlutafé fjölskyldufyrirtækisins Ferd til hvorrar um sig. Þær vinna þó ekki hjá fyrirtækinu sem er enn stýrt af föður þeirra.

Þriðji yngsti milljarðamæringur heims er einnig Norðmaður en það er Gustav Magnar Witzoe sem er erfingi Salmar ASA sem er fiskeldisfyrirtæki í Noregi. Faðir hans Gustav Witzoe, sem var stofnandi fyrirtækisins gaf honum 47% eignarhlut árið 2013. Gustav Magnar Witzoe er metinn á 1,8 milljarð dala af Forbes en hann er 24 ára gamall.

Evan Spiegel, stofnandi Snapchat, er fjórði yngsti milljarðamæringur í heimi en hann er metinn á um 3,1 milljarð dala. Spiegel er 27 ára að aldri.

Fimmti yngsti milljarðamæringur heims er John Collison en hann er metinn á um 1 milljarð dala. Collison er 27 ára gamall en hann stofnaði greiðslumiðlunarfyrirtækið Stripe ásamt bróður sínum Patrick Collison.