Fólk í ferðahug hefur úr nægum flugleiðum að velja í júlí. Í mánuðinum getur það valið úr 326 brottförum á viku eða 47 á dag frá Keflavík. Fimmtán flugfélög fljúga í mánuðinum. Þar af er Icelandair stærst með 219 ferðir eða tvær af hverjum þremur samkvæmt, talningu netmiðilsins Túrista .

Túristi segir að af þeim tólf erlendu félögum sem fljúga hingað í sumar hafa félögin Vueling og Thomas Cook ekki áður lagt leið sína til Íslands.

Þá segir Túristi að brottfarir á vegum Iceland Express voru 36 á viku í júlí í fyrra og á sama tíma fór Wow Air að jafnaði tuttugu ferðir. Í júlí í sumar muni Wow air fljúga fimmtíu sinnum á viku frá Keflavíkurflugvelli og vantar því aðeins sex ferðir til að fljúga jafn oft og félögin gerðu í sitthvoru lagi í fyrra. Hins vegar voru 180 sæti í leiguvélum Iceland Express en þau eru 168 hjá Wow. Framboð sameinaðs félags hefur því dregist saman um nærri 1.440 sæti á viku yfir háannatímann.

Túristi tók jafnframt saman lista yfir fimm stærstu flugfélögin í Keflavík í júní:

  1. Icelandair 67,2%
  2. Wow air 15,3%
  3. Airberlin 3,7%
  4. EasyJet: 2,5%
  5. Lufthansa: 2,2%