Víkingur AK kom til hafnar á Vopnafirði um miðnætti með um 1.800 tonn af kolmunna. Albert Sveinsson, skipstjóri, segir í frétt á vef HB Granda að um feitan og fallegan fisk sé að ræða sem fékkst sunnarlega í færeyskri lögsögu.

„Þetta var barningur en þó lentum við í smá hrotu þar sem hægt var að hífa tvisvar á dag. Verst að það var haugabræla þessa sömu daga en það tjáði ekkert að hugsa um það,“ segir Albert.

Kolmunninn á svæðinu er á suðurleið til hrygningar eftir að hafa verið á ætisslóð í Norðurhöfum í sumar og Albert segir að reynslan sýni mönnum að veiðin geti glæðst upp úr þessu.

„Það var töluvert af skipum komið á svæðið og þeim fer fjölgandi. Nokkur íslensk skip voru þarna að veiðum en annars voru skipin frá ýmsum þjóðríkjum,“ sagði Albert.