Veiði á vertíðarsvæðunum fyrir suðvestanvert landið er með ágætum og hafa ísfisktogarar HB Granda verið að fá dágóðan afla. Mest áhersla hefur verið lögð á að veiða góðan vertíðarufsa og hefur það gengið ágætlega að sögn Kristjáns Gíslasonar, skipstjóra á Viðey RE, í yfirstandandi veiðiferð.

Þetta kemur fram í frétt á vef fyrirtækisins , þar sem viðtal við Kristján er birt.

„Við erum á Eldeyjarbankanum og þótt ufsinn sé nokkuð dreifður þá höfum við fengið dágóðan ufsaafla. Þetta er stór og fallegur fiskur og meðalvigtin hjá okkur er um 4,5 kíló,” sagði Kristján er rætt var við hann síðastliðinn föstudag.

Í viðtalinu kemur fram að nú stendur yfir besti karfaveiðitíminn á heimamiðum HB Grandatogaranna og þorskveiði er einnig mjög góð hjá þeim sem það kjósa.

„Við vitum hvar karfinn veiðist aðallega og hið sama á við um þorskinn. Ef farið er í kantinn á Eldeyjarbanka og í Jökuldýpið niður á 115 til 200 faðma dýpi, þá er hægt að mokveiða þorsk. Það er mikið sótt í þorskinn og Norðlendingarnir eru t.a.m. allir hér syðra.”

Kristján segir að það komi mönnum á óvart að lítil þorskveiði hafi verið á Selvogsbanka. Hins vegar hafi góð veiði verið í kantinum og nánast uppi í fjöru.

„Þetta stafar örugglega af göngumynstri þeirrar loðnu sem til er og gengur vestur fyrir land,” segir Kristján Gíslason.

Viðey á að koma til löndunar í Reykjavík nk. þriðjudagsmorgun en aflabrögðin ráða því hvort sú áætlun stenst. Í síðasta túr náði áhöfnin fullfermi, 190 tonnum, á tæpum fjórum dögum en yfirleitt er gert ráð fyrir fimm dögum á veiðum.