*

þriðjudagur, 19. júní 2018
Fólk 16. júlí 2017 18:02

Finna bestu sundlaugina

Stefán Gestsson, er nýráðinn framkvæmdastjóri Ratio hf., þar sem hann hefur starfað síðustu ár sem flotastjóri.

Ritstjórn
Eva Björk Ægisdóttir

Stefán segist reyna að verja sem mestum tíma fyrir utan vinnu með fjölskyldunni sem hefur sett sér það markmið í sumar að heimsækja allar sundlaugar höfuðborgarsvæðisins og gefa þeim einkunn.

Stefán Gestsson hefur starfað í bygginga- og jarð-vinnugeiranum síðustu 15 árin. Árin 2005-2009 starfaði hann við sölu og ráðgjöf hjá Kraftvélum og aftur árin 2013-2016 sem framkvæmdastjóri fjármálaog þjónustusviðs fyrirtækisins. Í desember á síðasta ári gekk hann til liðs við Ratio hf. sem flotastjóri þar sem hann bar ábyrgð á innkaupum og sölu en hefur nú tekið við sem framkvæmdastjóri fyrirtækisins.

„Fyrirtækið er stofnað árið 2014 og upprunalega hugmyndin var sú að vera í flotaleigu fyrir fyrirtæki. Flotaleiga felst í því að fyrirtæki borga eina fasta greiðslu og sjáum við um að meta þörf viðkomandi fyrirtækis á bílum auk þess að sjá um allt viðhald. Síðan hafa tækifæri opnast á öðrum stöðum eins og í atvinnutækjum og gildir það sama þar. Við bjóðum upp á alhliða leigulausnir fyrir fyrirtæki, en flestir okkar samningar eru til tveggja ára. Við eigum ansi góðan flota, við erum með sendiferðabíla, vörubíla, krana og vinnuvélar.“

Stefán er giftur Elínu Guðbjörgu Bergsdóttur og eru þau búsett í Grafarvogi. Þau eiga saman tvær dætur sem eru 11 og 7 ára. Fyrir utan vinnu segist Stefán reyna að eyða eins miklum tíma og hann getur með fjölskyldunni.

„Við erum mikið í útiveru og svo erum við fjölskyldan með ákveðið markmið fyrir sumarið sem er að fara í allar sundlaugar á höfuðborgarsvæðinu og gefa þeim einkunn. Við gefum öll fjögur einkunnir, svo er vegið meðaltal og það kemur í ljós í lok sumars hvaða sundlaug er best.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.