Norska hafrannsóknastofnunin hefur kannað hafsbotninn í Barentshafi og víðar á 1.200 ferkílómetra svæði með myndbandsupptökutæki. Vísindamenn segja að rusl og plast finnist á flestum hafsvæðum sem rannsökuð hafa verið. Plastpokar finnist allt niður á 2.500 metra dýpi.

Alls hafa verið tekin 1.660 myndbönd af botninum og er hvert þeirra um 60 mínútur að lengd. Þessi myndbönd hafa verið skoðuð og magn af rusli metið á hverju svæði. Minna finnst af rusli eftir því sem norðar dregur en það hefur þó náðst á mynd allra nyrst á rannsóknasvæðinu austan við Svalbarða. Hvað Barentshafið varðar eru að meðaltali 155 kíló af rusli á hvern ferkílómetra. Mest af ruslinu er nær landi eða um 2 tonn á ferkílómetra. Þegar farið er sunnar meðfram strönd Noregs eykst ruslið, sérstaklega þar sem umferð skipa og báta er mikil. Til dæmis eru upp í 7 tonn af rusli á hvern ferkílómetra við ströndina við Mæri.

Víðast er um staka hluti að ræða sem fallið hafa fyrir borð, svo sem vinnuhanska eða hluta úr veiðarfærum. Við viss skilyrði, þar sem sterkir straumar eru ríkjandi safnast ruslið saman í hauga og myndar landslag á botninum eða það sópast niður í gil á botninum eða í djúpa ála.