Finnur Þór Erlingsson hefur verið ráðinn til Corivo og mun hann stýra þróun bakenda- og sérlausna á Corivo Travel Platform hugbúnaðinum. Finnur hefur reynslu á sviði upplýsingatækni og hugbúnaðargerðar og hefur starfað í fjármálageiranum síðan 2004. Á þeim tíma hefur hann einnig sinnt umtalsverðri hugbúnaðarþróun fyrir ferðaiðnaðinn.

Hann hefur starfað sem forstöðumaður upplýsingatæknisviðs Kviku banka og áður Straumi fjárfestingabanka frá árinu 2010. Þar á undan starfaði hann við hugbúnaðarþróun hjá Straumi fjárfestingabanka, Libra fjármálalausnum og Nordic Visitor. Finnur er í sambúð með Önnu Berglindi Jónsdóttur sem starfar sem verkefnastjóri hjá Nordic Visitor og eiga þau saman tvo drengi.

„Við erum virkilega stoltir af því að hafa fengið til liðs við okkur jafn reynslumikinn mann og Finn. Finnur mun spila stórt hlutverk í áframhaldandi þróun á lausnum Corivo Travel Platform og styðja við ört stækkandi hóp viðskiptavina okkar“ segir Ásgeir Bjarnason framkvæmdastjóri Corivo

Corivo hefur þjónustað ferðaiðnaðinn í meira en 12 ár. Kjarnahugbúnaður fyrirtækisins, Corivo Travel Platform og tengdar sérlausnir, styrkja innviði og bæta rekstur fyrirtækja í ferðaþjónustu með aukinni sjálfvirkni í bakvinnslu og öflugri tengigetu við ytri kerfi og lausnir segir í fréttatilkynningu Corivo.

Markmið með innleiðingu Corivo Travel Platform hjá ferðaþjónustufyrirtækjum er að minnka handavinnu og auka sjálfvirkni við bókanir ferða. Dæmi eru um að lausnir Corivo hafi aukið afköst við vinnslu bókana um allt að 30%.