Stanley Fischer, aðstoðarbankastjóri bandaríska seðlabankans, sér takmörk fyrir því hversu langt bankinn getur gengið í stefnu sinni við að þrýsta atvinnuleysi niður. Janet Yellen, bankastjóri bankans, hefur talað fyrir því að keyra hagkerfið áfram á háum þrýsting.

Fischer telur að stefna seðlabankans geti að lokum leitt til óæskilegra verðbólguhækkana. Seðlabankar sem hafa reynt að eyða atvinnuleysi með miklum inngripum, hafa vanalega keyrt upp verðbólgu.

Athygli vekur að æðstu starfsmenn seðlabankans, virðast vera á öndverðum meiði í skoðunum. Yellen telur Seðlabankann geta haldið áfram ákveðinni keyrslu, á meðan Fischer er gagnrýnni á stöðuna og mátt bankans.

Aðilar á markaði hafa einnig talað um þetta, en sumir hafa lýst yfir áhyggjum á ósamræmi Yellen og Fischer.