Ákvörðun hefur verið tekin um að loka rækjuvinnslu FISK Seafood ehf. í Grundarfirði. Tilkynnt var um niðurstöðuna á fundi með starfsfólki verksmiðjunnar í dag og taka uppsagnir gildi um næstu mánaðarmót. Veiðar og vinnsla rækju eru sagðar hafa átt erfitt uppdráttar hérlendis á undanförnum árum og ákvörðunin sé tekin í ljósi langvarandi tapreksturs í Grundarfirði sem ekki virðist gerlegt að vinda ofan af við núverandi aðstæður.

Alls munu nítján manns fá uppsagnarbréf sín í kjölfar fundarins í dag en tveimur er boðið að vinna áfram að frágangi í verksmiðjunni og undirbúningi sölu tækja og búnaðar á allra næstu mánuðum. FISK Seafood segist harma þessar málalyktir en vekur athygli á að rekstrarumhverfi veiða og vinnslu rækju á Íslandi hafi breyst verulega á undanförnum árum með óhjákvæmilegum samdráttaráhrifum.

„Það er sárt að horfast í augu við þennan veruleika. Rækjuveiðar við Íslandsstrendur eru orðnar innan við 10% af því sem var þegar best lét og hráefnið, sem stöðugt hækkar í verði,  kemur nú orðið að langmestu leyti erlendis frá. Gengi íslensku krónunnar, stóraukinn launakostnaður og aðrar innlendar kostnaðarhækkanir ráða einnig miklu um versnandi afkomu og við núverandi aðstæður er leiðin út úr vandanum því miður ekki einungis vandfundin heldur væntanlega ófær.“ segir Friðbjörn Ásbjörnsson, aðstoðarframkvæmdastjóri FISK Seafood ehf.