FISK-Seafood ehf. á Sauðárkróki hefur gengið frá samningi um kaup á öllum eignarhlut Brims hf. í Vinnslustöðinni hf. í Vestmannaeyjum. Um erað ræða þriðjungs hlut alls hlutafjár í Vinnslustöðinni. Kaupverðið er kr. níu milljarðar og fjögur hundruð milljónir.

Í fréttatilkynningu frá FISK-Seafood segir að samningurinn verði sendur Samkeppniseftirlitinu.Stjórn og stjórnendur FISK-Seafood ehf. vænti góðs samstarfs við eigendur og stjórnendur Vinnslustöðvarinnar hf. og sjái mikil tækifæri í rekstri félagsins og samvinnu þessara tveggja sjávarútvegsfyrirtækja.

Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar, kveðst fagna þessum tímamótum. "Þetta eru mikil tíðindi. Það eru að verða miklar breytingar í hluthafahópnum og við fögnum þeim. FISK-Seafood er mjög öflugt fyrirtæki og mér líst mjög vel á væntanlegt samstarf. Ég býst ekki við miklum áherslubreytingum. Um er að ræða 33% hlut í fyrirtækinu og hin 67% eru í höndum Vestmannaeyinga. En ég ætla samt að fullyrða það að þessu fylgi breytingar en ég sé það fyrir mér að þær verði einungis til góðs," segir Sigurgeir Brynjar.