Jón Ben Sveinsson á Stöðvarfirði er fiskibúð Austfjarða á fjórum hjólum. Hann sér til þess að eldri kynslóðir Íslendinga fái sinn skammt af sjávarfangi sem verkað er samkvæmt þjóðlegum og fornum aðferðum. Siginn fiskur, kæstur, þurrkaður, reyktur og barinn er meðal þess sem Jón sérhæfir sig í.

Harðfiskurinn sem Jón framleiðir, Stöddinn-Harðfiskur, er þekktur um allt land og selst eins og heitar lummur. Jórunn, dóttir Jóns, dró upp aðferðafræðina við framleiðslu harðfisksins í myndbandi sem var hluti af lokaverkefni hennar til stúdentsprófs við Menntaskólann á Egilsstöðum. Það má sjá á eftirfarandi vefslóð: www.youtube.com/results?search_query=lokaverkefni+harðfiskur .

„Ég reyni að hlúa að gamla fólkinu eins og ég get. Ég er með saltfisk sem er mikið keyptur og svo er ég með siginn fisk. Ég þurrka hann í hjalli en læt hann úldna áður svo hann verði bragðsterkari og betri. Fyrst geri ég að fisknum og þvæ honum ekki. Hann fer í fiskkassa og ég læt hann standa inni í verkuninni hjá mér í fimm daga til eina viku eða þar til húsið fer að anga. Bestur verður hann reyndar ef hann fær að úldna í tíu daga og kæsist hálfpartinn. Þetta er mín aðferð og ég sinni ekki eftirspurn eftir signa fiskinum,“ segir Jón.

Hann hefur líka boðið upp á þriggja ára gamlar, saltaðar þorskkinnar sem gamla fólkið er sólgið í. Auk þess er hann með saltaðar gellur, ýsu og þorsk en líka tegundir sem erfitt er að nálgast, eins og skötusel og lúðu. Jón kaupir fiskinn ferskan á mörkuðum, flakar hann, verkar og frystir.

Harðfiskinn vinnur Jón á þremur til fjórum mánuðum, eða frá febrúar fram í júní. Að vinnslutíma loknum er hann kominn með ársbirgðir. Honum berast pantanir í harðfiskinn hvaðanæva af landinu og erlendis frá líka.

Á N1 frá eitt til fimm

„Svo fer ég alla föstudaga til Reyðarfjarðar og er þar frá klukkan eitt til fimm. Þá hafa menn pantað hjá mér fisk í vikunni og koma af nánast öllu Austurlandi til þess að eiga þessi viðskipti.  Ég reyni að halda kostnaði niðri eins og hægt er svo hann hleypi ekki verðinu upp.“

Jón safnar líka upp pöntunum frá þeim sem hann kallar „bollukerlingar“. Það eru konur sem vilja nýjan fisk til að gera fiskibollur. Hann lætur þær svo vita þegar hann hefur flakað upp í pantanirnar og þær sækja fiskinn á föstudögum á N1 á Reyðarfirði.

Eins og hafið úti fyrir Austurlandi er mikil matarkista þá er enga hefðbundna fiskbúð að finna á Austfjörðum og einungis eina á Héraði. Jón sinnir hlutverkinu á bíl sínum og er mikið á ferðinni. Hann hefur farið út í sveitirnar þar sem tekið er á móti honum með kostum og kynjum.

„Ég hef lengi hugsað mér að fá mér bíl með frystikerfi. Hann yrði þá eins og ísbíll og ég gæti farið lengst upp í sveitir og hringt minni bjöllu. Núna er ég hins vegar að græja mig fyrir jólamarkaðina sem eru haldnir á Egilsstöðum og nánast öllum fjörðunum. Þá fer ég með allar þær tegundir sem ég á, panta borð á mörkuðunum og sel.“