Sala á ferskum fiski og öðrum sjávarafurðum í Vestur-Evrópu minnkaði úr 5,99 milljónum tonna árið 2010 í 5,88 milljónir tonna árið 2015, samkvæmt samantekt Euromonitor International.

Sala á unnum sjávarafurðum minnkaði einnig á sama tímabili eða úr 2,63 milljónum tonna í 2,58 milljónir tonna.

Hlutur stærstu markaðanna – Bretlands, Þýskalands, Frakklands, Spánar og Ítalíu – nam 60% af heildarsölu ferskra sjávarafurða. Mestur varð samdrátturinn í fiskneyslu á Spáni eða 16% en á Bretlandsmarkaði varð nokkur aukning.

Sérfræðingar Euromonitor International benda á að ef halda eigi í horfinu eða auka sölu á sjávarafurðum þurfi að svara kröfu markaðarins um vörur sem fljótlegt og auðvelt sé að matbúa. Það tengist því m.a. að konum fjölgi á vinnumarkaði og einhleypu fólki fjölgi sömuleiðis. Þá er hvatt til þess að neytendum verði gert auðveldara að nálgast sjávarafurðir, verði sé haldið skikkanlegu og áhersla sé lögð á hollustu varanna. Fram kom í könnun sem Seafish stofnunin í Bretlandi gerði í maí síðastliðnum að 69% fullorðinna Breta höfðu ekki heyrt ráðleggingar yfirvalda um fiskneyslu  eða að neysla fituríkra fiskafurða drægi úr áhættunni á hjartasjúkdómum.