Mikil umframeftirspurn er á laxfiski í heiminum og verðhækkanir á afurðum á erlendum mörkuðum milda neikvæð áhrif gengisþróunarinnar fyrir íslenska framleiðendur. Matorka hefur hafið eldi á bleikju og laxi á Reykjanesi og áformar að framleiða 3.000 tonn á ári þegar allt verður komið í fullan gang árið 2018.

Framkvæmdum við fyrsta áfanga fiskeldisstöðvar Matorku lýkur í næsta mánuði en fiskur er nú þegar kominn í eitt ker.

Matorka er með seiðaeldisstöð að Fellsmúla í Landssveit. Framleiðslugetan er ein milljón seiði á ári. Á síðasta ári keypti Matorka eldisstöðina Húsatóftir í Grindavík og þar verður áframeldi á seiðum. Að lokum fara þau stálpuð í nýju stöðina. Matorka mun nýta alla seiðaframleiðslu sína til áframeldis og segir Árni Páll Einarsson, framkvæmdastjóri Matorku, möguleika til frekari stækkunar.

3.000 tonn af laxi og bleikju

Í fyrsta áfanga nýju stöðvarinnar verða sex stór framleiðsluker. Matorka er með leyfi fyrir framleiðslu á 3.000 tonnum en uppbyggingin núna miðast við framleiðslu á 1.500 tonnum. Þeirri uppbyggingu lýkur í lok þessa mánaðar. Ráðgert er að hefja framkvæmdir við seinni hluta uppbyggingarinnar á næsta ári og verður framleiðslugetan að því loknu orðin 3.000 tonn á ári. Matorka ætlar að framleiða að jöfnu bleikju og lax og þá líklega í jöfnum hlutföllum.

Fyrsta slátrun í september

Um 7-8 manns verða starfandi í eldisstöðinni í Grindavík. Inni í bænum er fyrirtækið ennfremur með eigin vinnslu þar sem verða 6-7 starfsmenn. Þá starfa fjórir við seiðaeldið fyrir austan. Stór hluti afurðanna verður flakaður.  Ennfremur starfa 4 á aðalskristofu félagsins.

„Fyrsta slátrun úr nýju stöðinni verður í september. Slátrað verður á milli 30-40 tonnum á mánuði en seinna á árinu verður stöðin með framleiðslugetu upp á 125 tonn á mánuði. Það er mikill skortur á laxfiski í heiminum og verð þar af leiðandi mjög há. Bandaríkin eru helsti markaðurinn fyrir bleikju og þá aðallega fyrir stærri fisk,“ segir Árni Páll.

Það er því eftir miklu að slægjast í matfiskeldi. Afurðaverð á slægðri bleikju er um þessar mundir 800 kr. á kílóið og um 1.710 kr. fyrir kílóið af flökum.

Kjöraðstæður til landeldis

Útflutningsgreinarnar hafa mátt þola umtalsverðan tekjusamdrátt samfara hækkandi gengi krónunnar. Aðspurður hvort gengisþróunin hafi haft áhrif á framtíðaráform Matorku hvað varðar uppbygginguna segir Árni Páll ekki svo vera.

„Verðþróun á laxfiskum hefur verið svo hagstæð að hún hefur vegið upp á móti neikvæðum áhrifum gengisþróunarinnar.“

Eldisstöðin er vel staðsett með tilliti til samgangna og flutninga. Stutt er til Keflavíkurflugvallar og greið leið til gámahafnarinnar í Sundahöfn. Þá hefur bæst við útskipun frá Þorlákshöfn með Smyril Line sem Matorka hyggst nýta sér til útflutnings til Evrópu.

„Þessi staðsetning varð ekki síður fyrir valinu vegna jarðhitans. Við erum með samning við HS Orku um nýtingu á affallsvarma sem gerir eldisstöðina hérna einstaka á heimsvísu, og erum aðilar að Auðlindagarðinum. Íslendingar eru með einstaka möguleika á landeldi sem til að mynda bjóðast ekki í öðrum löndum. Norðmenn standa mjög framarlega í fiskeldi en þeir hafa ekki þær náttúrulegu aðstæður sem Ísland hefur upp á að bjóða varðandi landeldi. Þarna höfum við forskot og þess vegna hefur tekist að þróa þó nokkuð af fiskeldi á landi á Íslandi á sama tíma og Norðmenn stunda aðallega seiðaeldi á landi.“

Mikil tækifæri

Heimsmarkaður fyrir bleikju er á bilinu 8-9 þúsund tonn af ári. Íslenskir framleiðendur eru með helming þessa markaðar.

„Þessi markaður stækkar ekki nema með auknu framboði. Framleiðslugeta Íslendinga hefur verið takmörkuð og vantað hefur fleiri landeldisstöðvar. Við teljum að mikil, vaxandi eftirspurn sé eftir laxi í heiminum og öðrum laxfiskum. Það eru því mikil tækifæri til vaxtar innan þessarar greinar,“ segir Árni Páll.