Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur ákveðið að fella úr gildi allar heimildir færeyskra fiskiskipa til að stunda veiðar innan íslenskrar lögsögu á næsta ári. Þetta kemur fram í tilkynningu frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.

Á árlegum fundi sjávarútvegsráðherra landanna, sem haldinn var í Þórshöfn í Færeyjum dagana 12. til 13. desember, náðist ekki samkomulag meðal annars um veiðiheimildir Færeyinga í íslenskri lögsögu og um gagnkvæman aðgang að lögsögum ríkjanna vegna veiða á kolmunna og norsk-íslenskri síld árið 2018. Høgni Hoydal er sjávarútvegsráðherra Færeyja.

Ísland bauð fram óbreyttan samning á fundinum en Færeyjar kröfðust aukinna heimila til veiða á botnfiski í íslenskri lögsögu ásamt afléttingu takmarkana á manneldisvinnslu á loðnu. Áform ráðherra voru kynnt færeyskum stjórnvöldum fyrir jól eftir að Færeyjar höfðu tilkynnt að íslensk fiskiskip fengju ekki aðgang til veiða á kolmunna í færeyskri lögsögu nema að kröfum þeirra yrði gengið. Ákvörðun ráðherra nú hefur sömuleiðis verið kynnt færeyskum stjórnvöldum.

Reglugerðir sem gilda um heimildir færeyskra fiskiskipa til veiða innan íslenskrar lögsögu eru því felldar úr gildi frá og með 1. janúar 2018.