Ný skýrsla matsfyrirtækisins Fitch um íslenska ríkið var birt í dag. Á meðal helstu niðurstaða skýrslunnar eru að áætlun stjórnvalda um afnám hafta hefur jákvæð áhrif á lánshæfismat ríkissjóðs. Fitch lítur hins vegar svo á að vegna óvissu um tímasetningar og upphæðir hugsanlegra stöðugleikaframlaga sé ekki rétt að reikna með þeim í útreikningi lánshæfismatsins.

Það er mat Fitch að hlutfall ríkisskulda af landsframleiðslu muni minnka verulega á næstu árum, jafnvel þótt svo vildi til að ríkissjóður nyti ekki góðs af stöðugleikaframlagi frá slitabúum föllnu bankanna.

Fitch áætlar að jafnvel þó engin stöðugleikaframlög verði notuð til að greiða niður ríkisskuldið muni hlutfall ríkisskulda af landsframleiðslu vera 63,3% árið 2017. Samkvæmt grunnspá Fitch verður skuldahlutfallið komið undir 50% árið 2024.

Spá 5% verðbólgu

Í skýrslu Fitch er á nokkrum stöðum vísað í aðgerðir stjórnvalda til að liðka fyrir gerð kjarasamninganna. Aðgerðirnar, sem og kjarasamningarnir almennt, eru taldar ýta undir eftirspurn en jafnframt verðbólguþrýsting í hagkerfinu. Það er mat Fitch að verðbólga verði 4,8% árið 2016 og 5,0% árið 2017.

Til samanburðar spáði Seðlabankinn því í Peningamálum sínum í maí að verðbólga færi hæst upp í um 3,5% á fyrri hluta árs 2017. Bankinn spáði því jafnframt að verðbólga yrði hærri ef miklar launahækkanir myndu verða að veruleika.