Á fyrsta helmingi þessa árs var fjárfest fyrir 48,9 milljónir bandaríkjadala í 11 innlendum nýsköpunarfyrirtækjum og búist er við því að aukning verði þegar líður á árið.

Þetta kemur fram í skýrslu um fjárfestingar í nýsköpunarfyrirtækjum hér á landi sem birt var á heimasíðu North Stack. Búist er við því að árið 2018 verði afar gott fyrir fjárfestingar í nýsköpunarfyrirtækjum, jafnvel betra heldur en árið 2016 sem þótti afar gott.

Á síðasta ári beindu fjárfestar fjárfestingum sínum í meiri mæli til smærri fyrirtækja og stærstur hluti fjárfestinganna kom frá innlendum fjárfestum. Á fyrsta helmingi þessa árs kom aftur á móti 83% af fjármagninu frá erlendum fjárfestum.

Mest var fjárfest í lyfjum og tölvuleikjum

Í skýrslunni kemur fram að mest var fjárfest í lyfja- og tölvuleikjaiðnaðinum en ef aðeins eru teknar með fjárfestingar í þeim geirum nema þær um 75% af heildarfjárfestingum í nýsköpunarfyrirtækjum.

Alls var fjárfest fyrir 27,1 milljón bandaríkjadollara í fyrirtækjum sem tengdust lyfjaiðnaði, öll fyrirtækin sem fengu fjármagn höfðu fengið úthlutun áður. Þá var fjárfest fyrir 10 milljónir dollara í tveimur fyrirtækjum sem tengdust tölvuleikjagerð.

Nýsköpunarfjárfestingar hérlendis eru að breytast

Á fyrri helmingi þessa árs hafa innlendir fjárfestingarsjóðir á borð við Frumtak I & II, Eyrir Sprotar, Brunnur Ventures, Crowberry Capital og ríkisrekni fjárfestingasjóðurinn Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins leitt þessa fjárfestingar.

Sem dæmi má nefna fjárfesti Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins í sprotafyrirtækinu Florealis fyrir um 3,8 milljónir bandaríkjadala. Eins hefur einkarekni sjóðurinn Crowberry Capital hafið reglubundnar fjárfestingar.

Skýrsluna í heild sinni má lesa hér .